Bíó og sjónvarp

Tökur á Game of Thrones fara fram á Íslandi í febrúar

Birgir Olgeirsson skrifar
Kit Harrington í hlutverki Jon Snow í Game of Thrones. Tökur á sjöundu seríu fóru meðal annars fram hér á landi, þar á meðal í og við Stakkholtsgjá í Þórsmörk.
Kit Harrington í hlutverki Jon Snow í Game of Thrones. Tökur á sjöundu seríu fóru meðal annars fram hér á landi, þar á meðal í og við Stakkholtsgjá í Þórsmörk. IMDB
Tökur á áttundu seríu Game of Thrones munu fara fram hér á landi í febrúar næstkomandi. Er búist við að tökurnar muni standa yfir í nokkra daga en ekki er búið að velja hvaða staðir verða fyrir valinu hér á landi. Mun það að einhverju leyti ráðast af snjóalögum og verður því undirbúningur fyrir tökurnar þó nokkur.

Búist er við að meirihluti tökuliðsins hér á landi verði Íslendingar og að einhverjir af leikurum þáttanna komi til landsins. Áttunda serían mun innihalda sex þætti en ekki er vitað að svo stöddu hvenær þessi sería verður frumsýnd. Talið er líklegt að það verði árið 2019.

Tökur á þáttunum hafa farið fram hér á landi áður, en þá voru teknar upp senur fyrir seríur tvö, þrjú, fjögur og sjö.

Hafa þær farið fram á Snæfellsjökli, við Höfðabrekkuheiði, Mývatn, Grjótagjá, Reynisfjöru, við Jökulsárlón og Stakkholtsgjá, svo dæmi séu tekin.

Þá hafa nokkrir Íslendingar farið með hlutverk í þáttunum. Þar á meðal sló Hafþór Júlíus Björnsson í gegn sem Fjallið í fjórtán þáttum, Jóhannes Haukur Jóhannesson kom fyrir í tveimur þáttum í sjöttu seríu, meðlimir Of Monsters and Men léku aukahlutverk í sjöttu seríu og meðlimir Sigur Rósar gerðu slíkt hið sama í fjórðu seríu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×