Skoðun

Afleiðingar ofbeldis – hvað þýðir það á mannamáli?

Jóhanna G. Birnudóttir skrifar
Öll höfum við heyrt um hverjar eru afleiðingar ofbeldis í æsku. Það eru bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar, en hvað þýðir það í raun og veru?

Markaleysi, hvað þýðir það?
Jú, að finna ekki mörkin sín, að fólk getur valtað yfir mann bæði andlega og líkamlega og viðkomandi nær ekki að staðsetja sig, nær ekki að segja nei í mörgum aðstæðum og áttar sig jafnvel ekki á því fyrr en löngu seinna.  Þetta getur verið á mörgum sviðum.  Að geta ekki sagt nei við kynlífi, samskiptum, vinnu, félagslífi eða jafnvel einfaldlega að segja nei mig langar ekki í ís.  Að finna ekki hjá sjálfum sér stopp takkann og jafnvel þó maður vilji segja nei er maður kominn í þær aðstæður að finnast það of seint að segja nei.

Brotin sjálfsmynd.


Finnast maður óhreinn og ljótur, að allir geti séð utan á manni í hvernig umhverfi maður er. Efast sífellt um sjálfan sig, allt sem maður gerir eða segir hljóti að vera rangt. Að maður les alltaf það versta úr aðstæðum.  Ef einhver hrósar manni sé það vorkun eða kaldhæðni, ef það voru skammir var það til að fullvissa mann um að maður væri ómögulegur í alla staði og gæti ekki lært neitt.  Viðkomandi fer oft í það að passa sig á að vera ekki fyrir, vera ekki til og fer líka í að gæta að öllum öðrum líði vel, á sinn kostnað.

Skömm.


Skammast sín fyrir hvernig maður talar, hvernig maður hreyfir sig, hvernig maður borðar, í hvernig fötum maður er eða hvernig lykt sé af manni. Skömmin er svo þung að oft er erfitt að anda.

Samviskubit.
Að hafa samviskubit yfir því að vera til, hvernig manni leið, hvernig öðrum leið, hefði ekki átt að segja þetta, hefði ekki átt að gera svona.

Líkamleg einkenni;
Verkir. Endalausir óútskýrðir verkir. Jafnvel á unga aldri að finna allsstaðar til í líkamanum. Maganum, höfðinu, bakinu, hálsinum, hnjánum. 
vaðandi í vöðvabólgu sem enginn hefur skýringu á. Meltingartruflanir, hjartsláttartruflanir, móðurlífsvandamál, sviði í beinunum.

Að segja ekki frá getur verið lífshættulegt.

Með því að segja upphátt orðin sem þeytast um í höfðinu á manni losar maður um verki, bæði líkamlega og andlega.

Því oftar sem þú segir frá, því meira nærðu að losa þig frá atburðunum.  Með því að segja frá nærðu að koma tilfinningum þínum í réttara horf.  Með því að segja frá ertu að bjarga eigin lífi.

Með bestu kveðju
,

Jokka (Jóhanna G. Birnudóttir), starfskona Aflsins – Samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×