Sport

Gunnar: Til í að mæta Colby en hef ekki gaman af því að rífast á netinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar Nelson er í leit að nýjum andstæðingi og vill komast aftur í búrið hjá UFC snemma á næsta ári. Hann hefur ekki barist síðan í júlí er hann tapaði gegn Santiago Ponzinibbio í umdeildum bardaga.

Það vakti mikla athygli fyrir um mánuði síðan er Gunnar kallaði eftir bardaga í fyrsta sinn á ferlinum. Þá var Englendingurinn Darren Till að kvarta yfir því að allir væru hræddir við sig en Gunnar hélt nú ekki. Hann bauðst til þess að mæta Till í heimaborg hans, Liverpool.

„Við vorum að reyna að negla þennan bardaga í febrúar en mér sýnist verða af því og þetta bardagakvöld verður væntanlega ekki í Liverpool. Þá kemur London til greina í mars en það er ekkert komið í ljós. Við fengum engin svör frá mönnum Till né UFC. Ég berst í febrúar eða mars en á móti hverjum verður að koma í ljós,“ segir Gunnar sem hefur ekki útilokað að berjast við Till þrátt fyrir fá svör. Sá enski var að rífa mikinn kjaft en virðist ekki getað staðið við stóru orðin þegar honum býðst bardagi gegn reyndum kappa.

„Hann er eitthvað að skrifa á netið að það séu allir hlaupandi skíthræddir undan honum og það vilji enginn berjast við hann. Það var bara einfaldlega ekki rétt og ég svaraði því. Ég lít ekki beint á þetta sem eitthvað „trash talk“.  Æi, það eru alltaf einhverjir að væla á netinu og ég ákvað að svara þessu.“

Þó svo Gunnar  fái ekki bardaga gegn Till vonast hann eftir sterkum andstæðingi í febrúar eða mars.

„Vonandi eins og alltaf fæ ég einhvern á topp tíu. Það væri líka gaman að fá Colby,“ segir Gunnar en hann er að tala þar um Colby Covington sem er fljótt orðinn hataðasti maðurinn í UFC enda með ólíkindum dónalegur. Gunnar er samt ekki viss um að hann óski eftir þeim bardaga á netinu.

„Það hafði ekki mikið upp á sig síðast og ekki hef ég neitt svakalega gaman af því.“

Sjá má viðtalið við Gunnar hér að ofan.

MMA

Tengdar fréttir

Covington flýgur upp styrkleikalista UFC

Ruslakjafturinn umdeildi, Colby Covington, getur farið fram á titilbardaga í veltivigt UFC fljótlega ef hann heldur áfram á sömu braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×