Erlent

Vonir um samkomulag gengu ekki eftir

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May vill loka þessum kafla viðræðna sem fyrst.
Theresa May vill loka þessum kafla viðræðna sem fyrst. Nordicphotos/AFP
Samninganefndir Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu náðu ekki samkomulagi í gær eins og vonast var eftir. Frá þessu greindu Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á sameiginlegum blaðamannafundi í gær.

Nefndirnar reyna nú að komast að samkomulagi um réttindi Breta búsettra í Evrópusambandsríkjum og öfugt, hversu mikið Bretum beri að greiða til ESB við útgönguna og landamæragæslu á landamærum Írlands og Norður-Írlands. Sagði May í gær að viðræður myndu hefjast á ný undir lok vikunnar og að hún væri fullviss um að hægt væri að loka þessum kafla viðræðna í sátt.

Undir þetta tók Juncker. Sagði hann viðræður gærdagsins ekki hafa mistekist og að hann væri bjartsýnn á framhaldið. Leiðtogaráð ESB fundar í næstu viku og vilja Bretar og ESB klára þennan kafla fyrir þann fund svo hægt verði að ræða mögulegan fríverslunarsamning á milli Bretlands og ESB. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×