Skoðun

Forníslenska og fimmaurar

Ívar Halldórsson skrifar
Þegar á móti blæs er hægðarleikur að leggja árar í bát. En þeir sem kalla ekki allt ömmu sína söðla um og leggja á brattann, á meðan hinir huglausu staðhæfa að fásinna sé að bera í bakkafullan lækinn. Hægara sagt en gert kannski, en þeir fiska þó sem róa.“

Getur verið að þetta verði forníslenska eftir 50 ár?

Það fer svolítið fyrir brjóstið á mér að stór hluti kynslóðar þeirrar sem brátt tekur við af minni skilji ekki klassísk íslensk orðatiltæki eins og „Að leggja árar í bát“, „Að hafa öðrum hnöppum að hneppa“ og „Að stinga í stúf“. Það er flestum orðið ljóst að víða er pottur brotinn í þróun og verndun móðurmálsins okkar. 

Ég hef margsinnis lent í því eins og aðrir að fá tóm augnaráð frá táningum þegar ég hef við góð tækifæri brugðið á það ráð að upphefja íslenska tungu með sígildu íslensku orðatiltæki. Ef maður segir: „Ekki gera úlfalda úr mýflugu”, við unga manneskju í dag er ekkert ólíklegt að maður myndi slá viðkomandi gjörsamlega út af laginu. „Ehh...ekki gera hvaaað...úr hvaða flugu?!?” 

Ef maður segir ungri manneskju að hún sé að hengja bakara fyrir smið má búast við áhyggjuglampa í augum hennar. „Ég myndi aldrei hengja neinn...og pottþétt ekki fyrir einhvern iðnaðarmann!” 

Að stinga í stúf gæti þá misskilist sem morðtilraun á minnsta jólasveininn, en ofbeldi gegn jólasveinum er auðvitað ekki vel tekið hér í þjóðfélagi sem elskar þessa hvítskeggjuðu ljúflinga - ekki síst þá krúttið; hann Stúf.

Ég hef sjálfur alltaf borið mikla virðingu fyrir íslenskri tungu og er „stafsetningafrík“ í ofanálag – það segja alla vega þeir sem umgangast mig. Að stafsetja íslenskuna rétt og meðhöndla talmálið af virðingu er mér hjartans mál og hef ég því alltaf verið mjög iðinn við að leiðrétta kurteisislega fólk sem misstígur sig í málinu. 

Nú er löngu tímabært að við sem höfum sæmilegt vald á íslenskri tungu leggjumst á eitt við að varðveita móðurmálið okkar sem stendur nú ógn af aukinni netnotkun og ört vaxandi viðveru ungrar kynslóðar á samskiptamiðlunum. Við sem eldri erum berum ábyrgð á því að skella skjólshúsi yfir þennan mikla fjársjóð sem íslenskan er; mál sem má með engu móti glatast okkur. Ef við missum tökin á tungunni okkar núna er óvíst að við fáum annað tækifæri til að bjarga henni.

Það var í október 2014 sem ég og félagi minn ákváðum að stofna hóp á Facebook sem fékk nafnið „Hið íslenzka fimmaurafjelag“. Á síðunni birtum við fimmaurabrandara og ýmsa orðaleiki í myndrænu formi. Tilgangurinn með þessu hópi var tvíþættur: Útrás fyrir aulabrandara sem fæddust t.d. í vinnunni og fengu vinnufélaga og ættingja ýmist til að hlæja, rúlla augum eða reka upp eins konar uppgjafarstunur (Allt þetta voru að okkar mati ásættanleg viðbrögð). En tilgangur fésbókarsíðunnar var þó ekki síst fólginn í því að varðveita íslenska tungu og þá sér í lagi íslensk orð og rótgróin máltæki. Okkur hafði lengi fundist halla undir fæti í íslensku samfélagi hvað íslenskukunnáttu varðaði og sáum við þarna sæng okkar útbreidda. Með smá húmor og orðaást yrði hægðarleikur að leggja eitthvað að mörkum til að vernda íslenska tungu og hafa um leið ákaflega gaman af því.

Frá stofnun hefur öllum verið frjálst að skrá sig í „Hið íslenzka fimmaurafjelag” án nokkurrar skuldbindinga, enda áttu íslenska tungan og hláturstaugar meðlima einar að hagnast á þessu framtaki. Það sem kom okkur þó skemmtilega á óvart voru frábærar viðtökur við þessu tiltölulega einfalda útspili. 

Fjöldi fólks í samfélagi okkar fór að skrá sig í hópinn og hamast við að líka við myndirnar og meðfylgjandi orðagrín. Fjöldi Íslendinga sem við þekktum ekki báðu í auknum mæli um að fá aðgang að þessu litla auðmjúka framtaki okkar. Þá vildu meðlimir fá að taka virkan þátt í að efla þetta verkefni og fóru að senda sjálfir inn „fimmauramyndir“, og birtum við þær sem okkur fannst frambærilegar og nægilega fyndnar, á síðunni. 

Hin íslenska tunga er nefnilega ákaflega skemmtilegt og margslungið tungumál og er gaman að leika sér að því. Við áttuðum okkur á það að setja fram málið okkar á myndrænan hátt inn á fésbókarsíðuns og krydda það með smá húmor, gaf fólki nýtt og skemmtilegt sjónarhorn til að dást að íslenskunni.

Ég tel áríðandi að við sem íslensk þjóð hjálpumst að við að kenna nýrri kynslóð að varðveita málið okkar og einstaka framsetningu þess sem birtist meðal annars í málsháttum og orðatiltækjum. Þetta getum við gert með fjölbreyttum hætti. Ég veit að margir luma á góðum og gagnlegum hugmyndum sem styrkja myndu stöðu íslenskrar tungu - ef aðeins vinir hennar gæfu henni vængi.

Þá er rétt að taka fram að „Hið íslenzka fimmaurafjelag" er enn opið öllum á fésinu og eru meðlimir nú komnir vel á annað þúsund. Eins og meðlimir félagsins vita þá er ókeypis að hlæja og ekki er verra að nýta sér hvert tækifæri til að kitla hláturstaugarnar því að hláturinn lengir lífið. Það er því tilvalið að slá tvær flugur (ekki alvöru flugur) í einu höggi með því að hlæja að fimmaurabröndurum í myndrænu formi, og um leið sameinast um að viðhalda tungumáli okkar.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×