Körfubolti

Stólarnir rassskelltir í beinni: „Verða að andlegum aumingjum þegar að þeir mæta KR“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það verður seint sagt að Tindastóll hafi sýnt að liðið er meistaraefni þegar að það fékk rassskell á móti KR, 97-69, í Domino´s-deild karla í körfubolta í gærkvöldi en með sigri hefði liðið skotist aftur á toppinn.

Stólarnir hafa átt í bölvuðu basli með KR undanfarin ár en vesturbæjarliðið hefur ekki verið að sýna neinn glansbolta að undanförnu. Samt sem áður pakkaði það Stólunum saman og Sauðkrækingar fengu heldur betur að heyra það fyrir vikið.

Jón Halldór Eðvaldsson og Kristinn Friðriksson voru sérfræðingar í 100. þætti Domino´s-Körfuboltakvölds í gær sem var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD eftir leikinn og þar voru Stólarnir afgreiddir.

„KR er kryptonite Stólanna. Þetta er eins og með Superman. Þeir verða bara veikburða í kringum þetta KR-lið,“ sagði Jón Halldór og Kristinn greip orðið: „Þeir verða að andlegum aumingjum þegar að þeir mæta KR. Það er bara svoleiðis. Punktur.“

Jón Halldór skaut á Stólana um daginn og sagði að þeir gætu ekki orðið Íslandsmeistarar. Þetta er sönnunin fyrir því, að hans sögn.

„Þetta er risastórt spurningamerki fyrir Tindastólsliðið í heild sinni og alla þá sem að koma að þessu. Hvað þurfa þeir að gera til þess að yfirstíga þetta? Þeir þurfa að finna einhverja lausn,“ sagði hann.

„Ég var skammaður um daginn fyrir að segja að þegar á hólminn er komið missa þeir saur eða drulla á bitann. Þetta er akkurat ástæðan. Mættu í þennan leik og drullastu til að vinna eða gera eitthvað. Sýndu mér að þú sért virkilega að fara að gera atlögu að titlinum,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×