Enski boltinn

Þrjú rauð, útileikmaður í markið og Gerrard var í Everton síðast þegar að það vann á Anfield

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Gerrard kom inn á fyrir Liverpool og fékk rautt en nafni hans varði mark Everton.
Steven Gerrard kom inn á fyrir Liverpool og fékk rautt en nafni hans varði mark Everton. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson spilar í sínum fyrsta Merseyside-nágrannaslag þegar að Everton heimsækir Liverpool á Anfield á sunnudaginn en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Það er undir Gylfa og félögum komið að snúa við gengi Everton í þessum hatramma borgarslag en Everton hefur ekki unnið deildarleik á móti Liverpool síðan í október árið 2010 þegar að Tim Cahill og Mikel Arteta skoruðu mörkin í 2-0 sigri á Goodison Park.

Liverpool er búið að vinna sjö af síðustu af síðustu fjórtán leikjum liðanna og hinir sjö hafa endað með jafntefli. Ef farið er svo aðeins lengra til baka má nefna að í síðustu 24 leikjum liðanna hefur Liverpool unnið tólf, Everton aðeins tvo og þá hafa liðin níu sinnum skilið jöfn.

Byrjunarliðin í leiknum.mynd/11v11.com
Gengi Everton á Anfield er alveg ótrúlega slakt en liðið hefur ekki unnið borgarslaginn í Liverpool á útivelli síðan 27. september árið 1999 eða í rúm 18 ár. Kevin Campbell skoraði þá eina markið strax á fjórðu mínútu í rosalegum leik þar sem þrír leikmenn fengu rautt.

Það er svo langt síðan að Everton vann á Anfield að þennan ágæta dag voru stormsenterarnir Robbie Fowler og Michael Owen báðir í byrjunarliði Liverpool en Steven Gerrard var á bekknum. Hann kom aftur á móti inn á og fékk rautt spjald.

Það var aftur á móti einn Gerrard í byrjunarliði en það var Paul Gerrard, markvörður Everton. Hann átti stórleik og hélst inn á vellinum allan tímann. Sömu sögu er ekki hægt að segja um hollenska markvörðinn Sander Westerveld sem fékk rautt í liði Liverpool.

Hann og Francis Jeffers, framherji Everton, fóru í slag og voru báðir sendir í sturtu. Steve Staunton tók hanskana og kláraði leikinn í marki Liverpool.

Nú eru 18 ár liðin og Liverpool hefur ekki enn þá þurft að sætta sig við deildartap á heimavelli gegn Everton en spurningin er hvort Gylfi Þór Sigurðsson verði örlagavaldur á sunnudaginn þegar að fyrri Merseyside-slagur tímabilsins fer fram.

Brot úr þessum magnaða leikf yrir 18 árum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×