Körfubolti

LaVar tók soninn úr háskólanum | Ætlar að þjálfa hann sjálfur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
LiAngelo er hér hægra megin á myndinni en við hlið hans er yngsti bróðirinn, LaMelo.
LiAngelo er hér hægra megin á myndinni en við hlið hans er yngsti bróðirinn, LaMelo. vísir/getty
Körfuboltapabbinn umdeildi LaVar Ball er svo ósáttur við UCLA-háskólann að hann hefur tekið son sinn, LiAngelo, úr skólanum og ætlar sjálfur að undirbúa hann fyrir feril í NBA-deildinni.

LiAngelo er einn þriggja leikmanna skólans sem var handtekinn í Kína á dögunum fyrir þjófnað. Það mál vakti heimsathygli og ekki síst þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti fór að skipta sér af málinu og eignaði sér það að þeim var sleppt úr gæsluvarðhaldi og leyft að koma heim.

Strákarnir sem voru gripnir við þjófnaðinn voru aftur á móti settir í ótímabundið bann frá körfuboltanum eftir að þeir komu heim. Það sætti LaVar sig ekki við og hefur nú tekið drenginn úr skólanum.

„Ég ætla ekki að halla mér aftur og bíða eftir því að hann fái að spila. Honum var ekki einu sinni refsað svona harkalega í Kína. Þeir eru í raun í fangelsi í Bandaríkjunum,“ sagði LaVar sem ætlar ekki að sjá til þess að sonurinn fái meiri menntun.

„Ég mun undirbúa hann miklu betur fyrir nýliðaval NBA-deildarinnar en UCLA hefði nokkurn tímann gert. Hann fer ekki í annan skóla. Nú hefst bara undirbúningur fyrir nýliðavalið.“

Eldri bróðir LiAngelo, Lonzo, spilaði bara í eitt ár með UCLA áður en hann var valinn númer tvö í nýliðavalinu af LA Lakers.

Yngsti sonur Ball hefur ákveðið að fara í UCLA eftir tvö ár og spurning hvort það breytist eitthvað eftir þetta.


Tengdar fréttir

Fékk rúman milljarð í fría auglýsingu frá Trump

Er Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að ráðast á körfuboltapabbann LaVar Ball með látum á Twitter gerði hann sér líklega ekki grein fyrir því að hann væri í raun að gera Ball risastóran greiða.

Ball ætlar að gefa Trump skó

Körfuboltapabbinn yfirlýsingaglaði, LaVar Ball, ætlar að senda Donald Trump Bandaríkjaforseta körfuboltaskó til að reyna að róa hann aðeins eftir deilu þeirra síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×