Fótbolti

De Gea og Zlatan hvíla í kvöld en Pogba spilar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba byrjar í kvöld.
Paul Pogba byrjar í kvöld. Vísir/Getty
Paul Pogba verður í byrjunarliði Manchester United í kvöld þegar að það mætir CSKA Moskvu í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Pogba fékk rautt spjald á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og missir af næstu þremur leikjum liðsins í deildinni, þar á meðal stórleiknum gegn Manchester City á sunnudaginn.

„Paul er ekki í banni í Meistaradeildinni þannig að hann spilar. Allir hinir sem voru ekki klárir fyrir leikinn á móti Arsenal verða heldur ekki með,“ sagði José Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn.

David De Gea, sem fór á kostum á móti Arsenal, verður hvíldur og spilar Sergio Romero í hans stað. Þá verður Zlatan Ibrahimovic ekki heldur með.

„Zlatan er ekki meiddur en hann þarf að vinna vel í hnénu. Þegar hann er búinn að gera of mikið þarf hann að hvíla í nokkra daga og þannig er staðan núna,“ sagði José Mourinho.

Manchester United vann fyrstu fjóra leikina í A-riðlinum en tapaði óvænt fyrir Basel, 1-0, í síðustu umferð, þegar að liðið gat tryggt sér sigur í riðlinum. Það þarf eitt stig á móti Rússunum í kvöld til að vinna riðilinn.


Tengdar fréttir

Mourinho: De Gea bestur í heimi

David de Gea var maður leiksins þegar Manchester United vann Arsenal 1-3 á Emirates í gær, en Arsenal átti 33 skot í leiknum.

Pogba vonar að leikmenn City meiðist

Paul Pogba vonast eftir því að lykilmenn Manchester City meiðist og valdi því að liðið fari að misstíga sig í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×