Erlent

Þúsundum gert að yfirgefa heimili sín vegna skógarelda í Kaliforníu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mynd af eldunum sem slökkvliðið í Ventura birti á Twitter-síðu sinni fyrir hádegi.
Mynd af eldunum sem slökkvliðið í Ventura birti á Twitter-síðu sinni fyrir hádegi. slökkviliðið í ventura
Þúsundum hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í Suður-Kaliforníu vegna gríðarlegra skógarelda sem þar geisa. Eldurinn kviknaði snemma í gærkvöldi að staðartíma í Ventura-sýslu og breiddist hratt út þar sem hann var búinn að brenna um 4000 hektara af landi á aðeins nokkrum klukkutímum.

10.500 hektarar hafa orðið eldinum að bráð samkvæmt vef BBC og rýma á allt að 8000 heimili í Ventura og Santa Paula sem eru norður af Los Angeles. Einn lést í umferðarslysi þegar hann var að flýja undan eldinum að sögn lögreglu. Þá eru meira en 26 þúsund manns án rafmagns vegna eldanna.

Eldarnir hafa náð til borgarinnar Ventura þar sem byggingar hafa orðið eldinum að bráð, þar á meðal stór íbúðablokk. Hundruð slökkviliðsmenn berjast nú við eldinn og neyðarteymi fara hús úr húsi til að hvetja fólk til að yfirgefa heimili sín. Eldhafið er mikið auk þess sem sterkir vindar gera slökkvi-og björgunarstarf afar erfitt, að því er fram kemur á vef LA Times.

 

„Það lítur ekki út fyrir að við munum ná tökum á þessu. Það veltur í raun bara á móður náttúru,“ segir Mark Lorenzen, slökkviliðsstjóri í Ventura-sýslu.

Miklir skógareldar hafa geisað í Kaliforníu á þessu ári. Þannig létust til að mynda 40 manns í skógareldum í vínhéruðum ríkisins í október síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×