Erlent

Krefst gagna um fjármál Trump-fjölskyldunnar frá Deutsche Bank

Kjartan Kjartansson skrifar
Þýski bankinn Deutsche Bank hefur lánað fyrirtækjum Trump milljónir dollara í gegnum tíðina.
Þýski bankinn Deutsche Bank hefur lánað fyrirtækjum Trump milljónir dollara í gegnum tíðina. Vísir/AFP
Deutsche Bank hefur fengið stefnu frá Robert Mueller, sérstökum rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, þar sem gagna um reikninga í eigu Donalds Trump Bandaríkjaforseta og fjölskyldu hans er krafist. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir heimildarmanni sínum.

Í stefnunni , sem var send fyrir nokkrum vikum, var óskað eftir upplýsingum um tilteknar færslur á fjármunum. Deutsche Bank hefur lánað fyrirtækjum Trump milljónir dollara í tengslum við fasteignaviðskipti í gegnum tíðina. Fulltrúar bankans vildu ekki tjá sig um málið.

Bankinn hafnaði beiðni demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um gögn um fjármál Trump forseta í júní og bar við persónuverndarsjónarmiðum.

Heimildarmaður Reuters staðfestir að stefna sérstaka rannsakandans hafi borist Deutsche Bank. Þýska blaðið Handelsblatt sagði fyrst frá henni fyrr í dag.

Mueller, sem rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum í fyrra og mögulegu samráði þeirra við framboð Trump, hefur ákært fjóra fyrrverandi starfsmenn framboðsins. Á föstudag játaði Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, að hafa logið að alríkislögreglunni um samskipti sín við rússneskan sendiherra.


Tengdar fréttir

Mueller veik FBI-manni til hliðar vegna skilaboða um Trump

Alríkislögreglumaður sem vann við rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum er grunaður um að hafa skipst á skilaboðum við hjákonu sína sem túlka mætti sem neikvæð um Trump forseta.

Flynn lýsir sig reiðubúinn að aðstoða Mueller

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, lýsti sig sekan fyrir dómi af því að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni. Þá hefur hann samþykkt að aðstoða Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×