Erlent

Björn Ulvaeus fagnar #Metoo: „Í þetta skiptið munu raddirnar ekki þagna“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Björn Ulvaeus fagnar opinni umræðu um kynferðislega áreitni og er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í henni.
Björn Ulvaeus fagnar opinni umræðu um kynferðislega áreitni og er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í henni. Vísir/EPA

Björn Ulvaeus, einn stofnanda goðsagnakenndu hljómsveitarinnar ABBA, segir að #metoo átakið hafi fengið hann til að staldra við og hugsa. Hann segist hafa litið yfir farinn veg og hugsað hvernig hann hafi komið fram við konur.

Ulvaeus fer yfir #Metoo í skoðanapistli í Svenska Dagbladet.

„Ég tek eftir því að ég staldra við og hugsa: Er ég hávær? Er ég of fyrirferðarmikill? Fundur tveggja kvenna og fimm karla. Er það tilhneiging karlanna að grípa fram í fyrir konunum, eða þá að þær segi ekki það sem þær hefðu ætlað að segja?“

Björn er hér lengst til vinstri ásamt félögum sínum í ABBA, þeim Agnethu, Anni-Frid og Benny.Vísir/Getty

„Þetta gerði ég aldrei áður en #Metoo byltingin kom. En hversu hressandi er að gera það og hvers vegna í ósköpunum gerði ég það ekki fyrr?“

Fagnar því að upplifa #Metoo

Ulvaeus, sem er orðinn 72 ára gamall, segist þakklátur fyrir að fá að upplifa þess umræðu.

„Margir héldu að krafturinn myndi minnka, en hann hélt áfram og það vekur hjá manni von. Í þetta skiptið munu raddirnar ekki þagna. #Metoo er sögulegur vendipunktur. Að hugsa sér að maður fái að vera með!"

#Metoo átakið hefur verið mjög áberandi í Svíþjóð, heimalandi Ulvaeus, þar sem þúsundir kvenna úr ýmsum starfstéttum, þar á meðal tónlistarheiminum, hafa stigið fram og greint frá kynferðisofbeldi eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. 

Hér á landi hafa konur einnig stigið fram. Frásagnir stjórnmálakvenna, kvenna innan sviðslista og kvikmyndaiðnaðar hafa til að mynda verið áberandi. Þá hafa konur í vísindum einnig birt sögur af áreitni og eru samtöl milli kvenna úr ýmsum öðrum stéttum einnig að eiga sér stað.

Björn Ulvaeus var sem fyrr segir hluti af hljómsveitinn ABBA sem naut gríðarlega vinsælda um heim allan á áttunda áratug síðustu aldar. Hér fyrir neðan má heyra eitt frægasta lag þeirra.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×