Innlent

Ætla að bjóða gjaldfrjáls námsgögn á næsta skólaári

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, mælir nú fyrir fjárhagsáætlun borgarinnar á fundi borgarstjórnar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, mælir nú fyrir fjárhagsáætlun borgarinnar á fundi borgarstjórnar. Vísir/anton

Meirihluti borgarstjórnar hefur lagt til að bjóða upp á gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum borgarinnar á næsta skólaári, 2018 til 2019. Verði þessi tillaga samþykkt , sem yfirgnæfandi líkur eru á, á fundi borgarstjórnar í dag bætist Reykjavíkurborg í hóp sveitarfélaga sem bjóða grunnskólabörnum gjaldfrjáls námsgögn.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, greindi frá þessari tillögu í ræðu sem hann hélt á fundi borgarstjórnar í dag þar sem fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár er nú til umræðu.

„Með þessu er verið að bregðast meðal annars við ákalli Barnaheilla og foreldrafélaganna í Breiðholti og líka Framsóknar og flugvallarvina sem lögðu þetta til fyrr á þessu ári,“ sagði Dagur í ræðu sinni.

Farið verður í útboð fyrir alla grunnskóla í Reykjavík og verður fjárheimildum skóla-og frístundasviðs breytt í samræmi við niðurstöður útboðsins, segir í tillögu meirihlutans.

Þó nokkur umræða hefur farið fram undanfarin ár um gjaldfrjáls námsgögn og hafa Barnaheill bent á það kostnaður foreldra og forráðamanna grunnskólabarna vegna námsgagna geti hlaupið á tugum þúsunda.
 
Þá benti Barnaheill á það í maí í fyrra að innkaupalistar grunnskólabarna samræmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem hann kveður á um að öll börn eigi rétt á grunnmenntun án endurgjalds og að ekki megi mismuna börnum vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra.

Á meðal sveitarfélaga sem bjóða upp á gjaldfrjáls námsgögn eru Akranes, Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Blönduós og Akureyri en á vef Barnaheilla má finna nánari upplýsingar um það hvaða sveitarfélög bjóða upp á þessa þjónustu.

Í spilaranum hér fyrir neðan má fylgjast með fundi borgarstjórnar í beinni.


Tengdar fréttir

Nemendur hafa verið án námsgagna í fimm vikur

Nemendur Víðistaðaskóla í Hafnarfirði hafa enn ekki fengið námsgögn en Hafnarfjarðarbær ákvað um miðjan júlí að grunnskólinn yrði gjaldfrjáls. Kennarar hafa misst alla þolinmæði og foreldrar furða sig á seinaganginum.

Fleiri bjóða gjaldfrjáls námsgögn

Sveitarstjórnir Ríkiskaup stendur að sameiginlegu örútboði fyrir sveitarfélög sem hyggjast bjóða grunnskólanemendum gjaldfrjáls námsgögn á komandi skólaári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.