Fótbolti

Næsta ársþing KSÍ verður á Hilton Reykjavik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór
Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að næsta ársþing sambandsins verði haldið í Reykjavík og á kunnuglegum slóðum.

72. ársþing KSÍ verður nefnilega haldið á Hótel Hilton Reykjavík Nordica en það verður 10. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Þetta verður í þriðja sinn á fjórum árum og í sjötta sinn frá árinu 2011 þar sem ársþing KSÍ er haldið á Hótel Hilton Nordica.

Ársþingið í fyrra fór fram í Vestmanneyjum en þar var Guðni Bergsson kosinn nýr formaður KSÍ eftir formannslag við Björn Einarsson. Ársþingið 2014 fór fram í Hofi á Akureyri.

Næsta ársþing verður því fyrsta ársþing KSÍ eftir að Guðni tók við sem formaður en framundan er risa ár þar sem íslenska karlalandsliðið tekur þátt í úrslitakeppnin heimsmeistarakeppninnar í fyrsta sinn.

Tillögur og málefni þau er sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þingi skulu berast stjórn KSÍ minnst mánuði fyrir þing eða í síðasta lagi miðvikudaginn 10. janúar næstkomandi. Félögin hafa því enn 36 daga til að setja saman tilltögur að breytingum á reglum sambandsins.

Ársþingið verður sett klukkan 11:00 laugardaginn 10. febrúar og er gert ráð fyrir að því ljúki um klukkan 16:00 sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×