Körfubolti

Martin keppir á stjörnuhelgi franska körfuboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermansson.
Martin Hermansson. Vísir/Anton

Martin Hermansson er leikinn með körfuboltann eins og við þekkjum vel frá leikjum hans með íslenska körfuboltalandsliðinu á síðustu árum og það hefur heldur ekki farið framhjá Frökkunum í vetur.

Martin er á sínu öðru ári í franska körfuboltanum en þetta er þó hans fyrsta í úrvalsdeildinni þar sem hann spilar nú með liði Champagne Chalons-Reims.

Leikni Martins með boltann hefur vakið það mikla athygli í franska körfuboltanum á þessari leiktíð að honum var boðið að keppa á stjörnuhelgi franska körfuboltans.

Martin keppir þá við þrjá aðrar í „Skills challenge“ sem er þrautabraut með allskyns krefjandi stöðvum eins og við höfum séð á stjörnuhelgi NBA-körfuboltans.


Þetta er mikill heiður fyrir Martin en stjörnuleikurinn sjálfur er leikur milli úrvalsliðs frönsku leikmannanna á móti úrvalsliði erlendra leikmanna.

Stjörnuleikurinn fer fram í París 29. desember næstkomandi og Martin nær vonandi að safna kröftum heima á Íslandi um jólin áður en hann mætir á stjörnuhelgina.

Martin er með 12,1 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í leik með Champagne Chalons-Reims það sem af er tímabilinu en hann var með 17,2 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í b-deildinni á síðustu leiktíð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.