Körfubolti

Martin keppir á stjörnuhelgi franska körfuboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermansson.
Martin Hermansson. Vísir/Anton
Martin Hermansson er leikinn með körfuboltann eins og við þekkjum vel frá leikjum hans með íslenska körfuboltalandsliðinu á síðustu árum og það hefur heldur ekki farið framhjá Frökkunum í vetur.

Martin er á sínu öðru ári í franska körfuboltanum en þetta er þó hans fyrsta í úrvalsdeildinni þar sem hann spilar nú með liði Champagne Chalons-Reims.

Leikni Martins með boltann hefur vakið það mikla athygli í franska körfuboltanum á þessari leiktíð að honum var boðið að keppa á stjörnuhelgi franska körfuboltans.

Martin keppir þá við þrjá aðrar í „Skills challenge“ sem er þrautabraut með allskyns krefjandi stöðvum eins og við höfum séð á stjörnuhelgi NBA-körfuboltans.



Þetta er mikill heiður fyrir Martin en stjörnuleikurinn sjálfur er leikur milli úrvalsliðs frönsku leikmannanna á móti úrvalsliði erlendra leikmanna.

Stjörnuleikurinn fer fram í París 29. desember næstkomandi og Martin nær vonandi að safna kröftum heima á Íslandi um jólin áður en hann mætir á stjörnuhelgina.

Martin er með 12,1 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í leik með Champagne Chalons-Reims það sem af er tímabilinu en hann var með 17,2 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í b-deildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×