Innlent

Snjóar víða á landinu í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Á Norður- og Norðausturlandi er víða éljagangur og sums staðar skefur.
Á Norður- og Norðausturlandi er víða éljagangur og sums staðar skefur. Vísir/auðunn

Veðurstofan spáir að það muni snjóa víða norðanlands og á Vestfjörðum í nótt. Sömuleiðis mun setja niður nokkurn snjó suðaustanlands, allt að tuttugu til þrjátíu sentimetra.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að sums staðar verði talsverður bylur og takmarkað skyggni, meðal annars frá Skaftafelli og að Jökulsárlóni frá því seint í nótt og fram eftir morgni. Reikna má með hviðum, 30 til 35 metra á sekúndu, staðbundið í Öræfum fram yfir miðjan dag, en gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir Suðausturland.

Færð og aðstæður
Það eru hálkublettir víða á Suðurlandi, og sums staðar hálka, einkum á útvegum. Eins er víða nokkur hálka á Vesturlandi, ekki síst á fjallvegum.

Það hefur éljað á Vestfjörðum, og þar er víða strekkingsvindur og skafrenningur. Víðast hvar er ýmist hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð er á Steingrimsfjarðarheiði og þungfært á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði.

Á Norður- og Norðausturlandi er víða éljagangur og sums staðar skefur. Færð kann því að spillast þegar þjónustu lýkur.

Það er hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Austurlandi. Með suðausturströndinni hefur éljað og þar er nú víðast nokkur hálka eða snjóþekja,“ segir í tilkynningunni frá Vegagerðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.