Erlent

Þrír ákærðir vegna morðsins á Galizia

Atli Ísleifsson skrifar
Synir Daphne Caruana Galizia voru í hópi þeirra sem báru kistu blaðakonunnar í útförinni.
Synir Daphne Caruana Galizia voru í hópi þeirra sem báru kistu blaðakonunnar í útförinni. Vísir/afp
Þrír menn hafa verið ákærðir vegna morðsins á maltneska rannsóknarblaðamanninum og bloggaranum Daphne Caruana Galizia.

BBC greinir frá málinu. Hin 53 ára Galizia var myrt þegar bíll hennar var sprengdur í loft upp skammt frá heimili hennar í Bidnija, nærri Mosta, á Möltu um miðjan október.

Galizia hafði fjallað ítarlega um Panamaskjölin, spillingarmál maltneskra stjórnmála- og embættismanna, meðal annars aflandsfélag sem tengdist forsætisráðherranum Joseph Muscat.

Muscat greindi frá því í gær að tíu manns hafi verið handteknir vegna málsins.

Þrímenningarnir sem nú hafa verið ákærðir í málinu neita sök að því er segir í maltneskum fjölmiðlum. Þeir eru einnig sakaðir um ólöglega eign á vopnum og tækjum og tólum ætluðum til sprengjugerðar.

Ríkisstjórn Möltu hafði áður boðið eina milljón evra fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku á morðingja blaðakonunnar. Galizia hafði farið til lögreglunnar um tveimur vikum fyrir morðið vegna morðhótana sem henni höfðu borist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×