Erlent

„Johnny okkar“ látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Johnny Hallyday var mikilsmetinn í hinum frönskumælandi heimi.
Johnny Hallyday var mikilsmetinn í hinum frönskumælandi heimi. Vísir/Getty
„Stærsta rokkstjarna Frakka,“ Johnny Hallyday, er látinn, 74 ára að aldri. Að sögn eiginkonu hans var banamein hans krabbamein.

Söngvarinn, sem hét réttu nafni Jean-Philippe Smet, seldi rúmlega 100 milljón plötur á ferlinum og lék í fjölda kvikmynda. Hann var sæmdur riddaratign af þáverandi Frakklandsforseta, Jacques Chirac, árið 1997.

Þrátt fyrir að vera í hávegum hafður í hinum frönskumælandi hluta heimsins, þar sem hann var einfaldlega kallaður „Johnny okkar“ að sögn breska ríkisútvarpsins, tókst honum ekki að öðlast teljandi vinsælda annars staðar.

Eiginkona Johnny greindi frá andláti hans í yfirlýsingu í nótt. „Ég rita þessi orð án þess að trúa þeim. En samt, þau eru sannleikurinn. Eiginmaður minn er ekki lengur á meðal vor. Hann yfirgaf okkur í nótt rétt eins og hann hafði lifað lífi sínu; með hugrekki og reisn.“

Fjölmargir hafa minnst Johnny í morgunsárið, til að mynda Frakklandsforsetinn Emmanuel Macron sem segir söngvarann hafa sett mark sitt á alla samferðamenn sína.

Á meðal annarra sem sent hafa samúðarkveðjur eru rokkarinn Lenny Kravitz og söngkonan Celine Dion.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×