Enski boltinn

„Eitt mikilvægasta mark Lukaku á ferlinum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lukaku skoraði í gær.
Lukaku skoraði í gær. vísir/getty
Romelu Lukaku skoraði eitt mikilvægasta mark sem hann á eftir að skora á sínum ferli í gærkvöldi þegar að hann kom boltanum í netið á móti CSKA Moskvu í Meistaradeildinni. Þetta segir Jamie Redknapp, fyrrverandi landsliðsmaður Englands.

United tryggði sér í gærkvöldi efsta sæti A-riðils Meistaradeildarinnar með 2-1 sigri á rússneska liðinu en Belginn stóri skoraði jöfnunarmarkið eftir sendingu frá Paul Pogba.

Þetta var fyrsta mark Lukaku síðan hann skoraði í 4-1 sigri á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni 18. nóvember en United á fyrir stafni borgarslag á móti Manchester City á sunnudaginn þar sem liðið verður án Paul Pogba.

„Þetta var eitt mikilvægasta mark sem Lukaku hefur skorað á ferlinum. Það skal enginn velkjast í vafa um það. Þetta á eftir að gefa honum svo mikið sjálfstraust fyrir borgarslaginn í Manchester um helgina,“ sagði Jamie Redknapp í þættinum The Debate á Sky Sports í gærkvöldi.

„José Mourinho á nú eftir að íhuga að sleppa af honum beislinu á móti City því þetta mark var svo mikilvægt fyrir hann,“ segir Jamie Redknapp og Ian Wright, tók undir þessi orð.

„Það er talað svo mikið um endurkomu Zlatan og hvort þeir geti spilað saman. Nú þegar Lukaku hefur verið að klúðra svo mörgum færum þurfti hann svo sannarlega á þessu marki að halda,“ sagði Wright.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×