Körfubolti

Fyrst Jordan og nú var Steph Curry á fremsta bekk þegar að Jón Axel fór á kostum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Axel Guðmundsson er að standa sig fyrir framan þá bestu í sögunni.
Jón Axel Guðmundsson er að standa sig fyrir framan þá bestu í sögunni. vísir/getty

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, fór á kostum fyrir lið sitt Davidson Wildcats í efstu deild bandaríska háskólakörfuboltans í nótt þegar að Villikettirnir unnu VMA Keydets á heimavelli, 74-51.

Jón Axel skoraði 22 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar á 35 mínútum en hann var stigahæstur á vellinum í þessum góða sigri. Davidson er búið að vinna alla þrjá heimaleiki sína og er í heildina búið að vinna fjóra leiki af sjö.

Sjálfur Steph Curry, einn besti leikmaður heims og ofurstjarna meistaraliðs Golden State Warriors, var í húsinu og sá Jón Axel fara á kostum en Curry mætti á hækjum og settist á fremsta bekk á sínum gamla heimavelli.

Curry er frægasti leikmaður í sögu Davidson-skólans og kíkti á strákana sem nú halda uppi heiðri skólans síns, en Curry sneri sig á ökkla í síðasta leik Golden State og verður frá næstu vikurnar.

Þetta er annar leikurinn í röð sem NBA-ofurstjarna sér Jón Axel spila frábærlega en sá besti allra tíma, Michael Jordan, var í húsinu þegar að Davidson tapaði fyrir North Carolina um helgina.

Þá skoraði Jón Axel 19 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar í tíu stiga tapleik en UNC hefur um langa hríð verið eitt albesta lið bandarísku háskólakörfunnar.

Jón Axel er búinn að spila mjög vel á tímabilinu fyrir Davidson. Hann er að skora 16,3 stig, taka 5,8 fráköst og gefa sex stoðsendingar að meðaltali á 33 mínútum í hverjum leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.