Fótbolti

Malmö á bara eftir að semja um kaupverð á Arnóri Ingva

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Ingvi fór til AEK frá Rapid Vín í sumar
Arnór Ingvi fór til AEK frá Rapid Vín í sumar vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í fótbolta, er líklega á leið aftur í sænsku úrvalsdeildina en Svíþjóðarmeistarar Malmö eiga bara eftir að semja um kaupverð á honum við austurríska félagið Rapid Vín.

Þetta kemur fram í frétt í Expressen í dag en þar segir að Arnór Ingvi sé búinn að semja um kaup og kjör við sænska félagið. Hann er nú á láni hjá AEK í Aþenu en fær ekkert að spila.

Arnór Ingvi fékk lítið að spila með Rapid Vín á síðustu leiktíð og var því lánaður til AEK þar sem hlutirni fóru úr öskunni í eldinn. Hann er aðeins búinn að koma við sögu í þremur leikjum AEK af þrettán í deildinni og er oftast utan hóps.

Njarðvíkingurinn, sem gerði garðinn frægan með Keflavík í Pepsi-deildinni áður en hann fór út í atvinnumennsku, fór á kostum með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni og varð meistari með liðinu fyrir tveimur árum.

Hann þarf að byrja að spila meira til að missa ekki af HM-lestinni en hver spiluð mínúta landsliðsmanna skiptir nú meira máli en nokkru sinni fyrr í aðdraganda heimsmeistaramótsins.

Sjálfur vill Arnór Ingvi ekkert segja við Expressen og bendir á umboðsmann sinn en fátt virðist geta komið í veg fyrir endurkomu Arnórs í sænsku úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×