Lífið

Tónlist í jólapakkann ekki alveg liðin tíð

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hljómsveitin Maus um það leyti þegar Lof mér að falla að þínu eyra kom út.  Endurútgáfa þeirrar plötu er alveg frábær jólagjöf.
Hljómsveitin Maus um það leyti þegar Lof mér að falla að þínu eyra kom út. Endurútgáfa þeirrar plötu er alveg frábær jólagjöf.

Nokkrar sveitir gáfu í ár út sérstaka viðhafnarútgáfu af sínum vinsælustu verkum á vínylplötu. Maus sendi frá sér endurútgáfu af Lof mér að falla að þínu eyra, Kolrassa krókríðandi af Drápu og Botnleðja af Fólk er fífl. Það verður spennandi að fylgjast með hvort fleiri fylgi í fótspor þeirra á næstunni, enda af nógu að taka.

Vínyllinn fór að koma sterkur inn aftur fyrir nokkrum árum og tók þá raunar fram úr geislaplötunni. Það er erfitt að segja hver ástæðan fyrir því er – líklega eru þær margar og fylgja líklega falli tónlistarsölu, þó að það kunni að hljóma mótsagnakennt. Vínylplötur eru oft eigulegir gripir og það er það sem fólk saknar eftir að útgáfa tónlistar færðist yfir í stafrænt form, þ.e.a.s. þess að geta haldið á einhvers konar grip.

Páll Óskar keyrði Kristalsplötuna sína heim til fólks í ár. Vafalaust verður hún í nokkrum jólapökkum. Vísir/Eyþór

Safnað fyrir útgáfu

Einhverjir hafa brugðið á það ráð að safna fyrir útgáfu á plötum sínum. Þá er notast við söfnunarsíður eins og Karolina Fund þar sem aðdáendur geta styrkt útgáfuna – raunar forkeypt plötuna og síðan fengið hana upp í hendurnar um leið og hún kemur úr prenti (ef safnarinn nær takmarki sínu það er að segja). Ný Dönsk safnaði fyrir nýjustu plötunni sinni, sem auðvitað tókst og úr varð platan Á plánetunni jörð.

Páll Óskar sendi frá sér Kristalsplötuna en hann safnaði reyndar ekki fyrir henni en tók niður pantanir áður en hún kom út og sentist svo um landið með eintökin.

Snorri Helgason safnaði fyrir plötunni Margt býr í þokunni en um er að ræða hálfgert gæluverkefni sem Snorri hefur verið að vinna að síðustu fjögur árin.

Gunnar Þórðarson gefur út heiðarlegan geisladisk og ekkert kjaftæði. Vísir/GVA

Ekkert kjaftæði

Sumir þurfa svo ekkert að vera að pæla í einhverjum svona hlutum og gefa bara út heiðarlega geisladiska sem hvort sem er seljast í bílförmum enda stór aðdáendahópur bak við sem er ekkert endilega hrifinn af einhverju Spotify bulli og söfnunum og svona.

Björgvin Halldórsson sendir frá sér Þig dreymir kannski engil en það er safn af ballöðum Bós sem eru auðvitað fjöldamargar. Geir Ólafs setur Las Vegas jólasýninguna sína á geisladisk og er það líklega keppinautur um jólagjöf ársins. Eyþór Gunnarsson og Tómas R. gefa út sameiginlega plötu, Innst inni. Bubbi sendi frá sér plötuna Túngumál, en hún kom einnig á vínyl. Gunnar Þórðarson gefur út sextán glæný lög undir heitinu 16 – en þar veita margir af ástsælustu söngvurum og textahöfundum þjóðarinnar honum aðstoð, eins og til dæmis Bragi Valdimar, Guðmundur Andri Thorsson, Vigdís Grímsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ómar Ragnarsson, Sigríður Thorlacius, Jóhanna Guðrún og Stefán Hilmarsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.