Handbolti

Gísli Þorgeir: Óraunverulegt að tala við Alfreð um að spila fyrir Kiel

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson gæti spilað á sínu fyrsta stórmóti á næsta ári auk þess að ganga í raðir Kiel.
Gísli Þorgeir Kristjánsson gæti spilað á sínu fyrsta stórmóti á næsta ári auk þess að ganga í raðir Kiel. vísir/
„Þetta er búið að vera alveg fáránlega langt ferli,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður FH í Olís-deild karla í handbolta, sem er búinn að semja við þýska stórliðið Kiel til þriggja eins og kom fram fyrr í dag. Hann gengur í raðir Kiel næsta sumar.

Vísir náði í skottið á Gísla þegar að hann var að koma úr stjörnufræðiprófi sem hann gat eflaust lítið einbeitt sér í enda Kiel að tilkynna þessa stórtíðindi á sama tíma.

Kiel er sigursælasta félag Þýskalands en þjálfari þessi er Alfreð Gíslason sem margir telja einn besta þjálfara heims. Gísli tekur undir þau orð og getur ekki beðið eftir því að spila undir stjórn hans.

Gísli Þorgeir hefur farið á kostum með FH.vísir/eyþór

Varð smá hræddur

„Ég var svo fáránlega ánægður þegar að Kiel hringdi og ég vissi að þetta lið, sem ég hef alltaf litið svo rosalega til, vildi fá mig. Ég ber svo fáránlega virðingu fyrir Alfreð Gíslasyni sem mér finnst vera besti þjálfari í heimi. Það var bara óraunverulegt að tala við hann um að ég gæti farið til Kiel. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu,“ segir Gísli sem hefur þurft að halda þessu leyndu ansi lengi.

„Þetta ferli hefur verið fáránlega þögult,“ segir hann, en Gísli hefði líklega skrifað undir síðasta sumar hefði hann ekki olnbogabrotnað. „Maður hefur bara þurft að halda kjafti sem er búið að vera erfitt. En það er bara fáránlega gaman að þetta sé að klárast núna.“

Gísli viðurkennir að hann óttaðist aðeins að Kiel væri úr myndinni þegar að hann meiddist illa í sumar og missti af unglingalandsliðsverkefnum.

„Auðvitað var maður smá hræddur um að ferlið myndi stoppa en það gerðist ekki. Ég vissi alltaf að ef hlutirnir myndu ganga eins og í fyrra þegar að ég kæmi til baka var ég alltaf að fara út,“ segir Gísli.

Aron Pálmarsson fór einnig ungur út frá FH til Kiel og var undir stjórn Alfreðs Gíslasonar sem gerði hann að einum besta leikmanni heims, ef ekki hreinlega þeim besta. Gísli fær ekki svo langan tíma með Alfreð því hann hættir eftir næstu leiktíð.

Gísli brosmildur í Kiel.mynd/kiel

Ekki bara dans á rósum

„Maður hugsaði auðvitað aðeins til þess að Alfreð er að hætta en samt var engin spurning í mínum huga um að semja við Kiel. Aron fékk sex ár þannig að þetta eina ár verður bara enn mikilvægara fyrir mig. Ég þarf að nýta hverja einustu æfingu og hvern einasta dag til að læra af Alfreð. Það verður nú samt varla einhver vitleysingur sem tekur við af honum,“ segir Gísli sem talaði eðlilega við Aron Pálmarsson áður en hann tók þessa ákvörðun.

„Ég heyrði aðeins í honum með þetta allt saman og hann kom með nokkra góða punkta. Aron sagði mér við hverju mætti búast og svoleiðis,“ segir Gísli sem veit að hann er að fara í töluvert erfiðara umhverfi.

„Lífið er ekki alltaf dans á rósum þarna úti. Þá er gott að hafa fengið Seinni bylgjuna [Handboltaþátt Stöð 2 Sport, innsk. blm] til dæmis inn í handboltann hér heima þar sem maður fær smá gagnrýni. Maður fær endalausa gagnrýni í atvinnumennskunni ef maður er ekki að standa sig þannig svona þáttur og umfjöllun hjálpar manni að þróast sem leikmaður,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×