Formúla 1

Vettel: Endurkoma Kubica yrði högg fyrir unga ökumenn

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Tíu ára gömul mynd af Kubica, og Raikkonen með Vettel í bakgrunn. Vettel var þá að stíga sín fyrstu skref.
Tíu ára gömul mynd af Kubica, og Raikkonen með Vettel í bakgrunn. Vettel var þá að stíga sín fyrstu skref. Vísir/Getty
Sebastian Vettel, ökumaður Ferrari liðsins í Formúlu 1 telur að endurkoma Robert Kubica í Formúlu 1 yrði högg fyrir unga ökumenn sem berjast um fá laus sæti í mótaröðinni.

Kubica hefur undanfarið verið við prófanir á Williams bílnum og stefnir á keppni á næsta ári með Williams. Þá sem liðsfélagi Lance Stroll sem ók sitt fyrsta tímabil í Formúlu 1 í ár.

Vettel hefur velt fyrir sér hvers vegna Kubica beið svo lengi með að gera tilraun til endurkomu. Hann slasaðist lífshættulega í rallý keppni árið 2011. Kubica verður 33 ára í næstu viku. Vettel viðurkennir að það væri „falleg saga“ ef Kubica snéri aftur. Hún yrði þó líklegast á kostnað ungs ökumanns sem fengi ekki tækifæri.

„Mér þykir það afar sorglegt sem kom fyrir hann á sínum tíma, hann var talinn efni í framtíðar heimsmeistara,“ sagði Vettel í samtali við svissneska blaðið Blick.

„Ég skil þó ekki hvers vegna hann er að reyna þetta núna. Af hverju gerði hann þetta ekki fyrr? Þetta yrði vissulega falleg saga fyrir hann en leiðinlegt fyrir unga ökumenn sem missa mögulegt sæti til hans,“ sagði Vettel enn frekar.

Fari sætið hjá Williams til Kubica eða Paul di Resta, sem hefur verið þróunar- og varaökumaður Williams í ár, þá verður einungis einn nýr ökumaður í Formúlu 1 á næsta ári. Charles LecLerc, sem verður hjá Sauber liðinu.

Sergey Sirotkin er eini ungi ökumaðurinn sem virðist raunverulega vera í þeirri stöðu að geta fengið sætið hjá Williams. Williams liðið er þó sennilega að leita að ökumanni með reynslu til að vera við hlið Stroll sem hefur aðeins lokið einu tímabili.


Tengdar fréttir

Bílskúrinn: Uppgjör ársins

Formúlu 1 tímabilinu lauk í Abú Dabí síðustu helgi. Það er því viðeigandi að Bílskúrinn líti yfir farinn veg og skoði það helsta sem er að frétta af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×