Erlent

Breska ríkisstjórnin hefur ekki látið meta áhrif Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
David Davis sat fyrir svörum hjá þingnefnd sem fjallar um Brexit í morgun.
David Davis sat fyrir svörum hjá þingnefnd sem fjallar um Brexit í morgun. Vísir/AFP
Brexit-ráðherra bresku ríkisstjórnarinnar viðurkenndi að hún hefði ekki látið meta áhrif úrgöngunnar úr Evrópusambandinu á efnhag Bretlands. Á fundi með þingmönnum sagði ráðherrann að umfangsmikil viðlagaáætlun væri þó til staðar.

David Davis, ráðherra ríkisstjórnarinnar sem fer fyrir viðræðum um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sat fyrir svörum hjá nefnd breska þingsins sem fjallar um Brexit í dag. Þar var hann spurður að því hvort að ríkisstjórnin hefði látið meta áhrif útgöngunnar á ýmsa geira atvinnulífsins.

„Það er ekkert kerfisbundið mat á áhrifum til,“ sagði Davis, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þegar Hillary Benn, formaður Brexit-þingnefndarinnar, spurði ráðherrann hvort ekkert væri bogið við það svaraði Davis að ekki væri þörf  á formlegum skýrslum til að átta sig á að „reglugerðarhindranir“ kæmu til með að hafa áhrif.

„Ég er ekki aðdáandi haglíkana vegna þess að þau hafa öll reynst vera röng,“ sagði Davis meðal annars.

Ríkisstjórn Theresu May hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir hvernig hún hefur tekið á Brexit. Í ljósi yfirlýsingar Davis nú um að ekki hafi verið ráðist í formlegt mat á áhrifum Brexit á hagkerfið saka gagnrýnendur stjórnina um að hafa afvegaleitt þingið með því að láta í veðri vaka að áhrifin hefðu verið könnuð.


Tengdar fréttir

Vonir um samkomulag gengu ekki eftir

Samninganefndir Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu náðu ekki samkomulagi í gær eins og vonast var eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×