Viðskipti innlent

Gífurleg aukning í pakkasendingum Póstsins

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Aukning hefur orðið í sendingum Póstsins á pökkum innanlands.
Aukning hefur orðið í sendingum Póstsins á pökkum innanlands. Fréttablaðið/Ernir
Fleiri innlendir pakkar fóru í gegn hjá Póstinum í nóvember heldur en í öllum desembermánuði í fyrra og má rekja það til meiri netverslunar en hún hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Aukninguna í nóvembermánuði má rekja til vinsælda netverslunardaganna þriggja – dagur einhleypra (Single‘s Day), svartur föstudagur (Black Friday) og netmánudagur (Cyber Monday) þar sem boðið er upp á ríflegan afslátt.

Pakkamagnið í nóvember bendir einnig til þess að margir Íslendingar hafi ákveðið að vera ekki á síðustu stundu og hugað fyrr að jólagjafainnkaupum.

Stöðug aukning í erlendri netverslun

Erlend netverslun er einnig í stöðugum vexti. Þegar fyrstu ellefu mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil í fyrra kemur í ljós að sendingum erlendis frá hefur fjölgað um rúm 60 prósent. Ekkert lát virðist vera á þessari aukningu og sérfræðingar spá því að netverslun Íslendinga haldi áfram aukast á næstu misserum.

Í tilkynningunni segir Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Póstsins, að innkaupavenjur Íslendinga séu að breytast. „Það er óhætt að segja að það sé mikið að gerast hjá okkur en við erum að afhenda sendingar að meðaltali á 12 sekúndna fresti í heimkeyrslu. Við tókum einnig upp þá nýbreytni nú í nóvember á höfuðborgarsvæðinu að keyra pakka út á laugardögum til að bregðast við aukningunni. Innkaupavenjur Íslendinga eru að breytast hratt og mörgum finnst þægilegt að versla á netinu. Fólk upplifir sig öruggara í þessum viðskiptum en það gerði fyrir nokkrum árum. Það er líka auðvelt að fylgjast með för sendingarinnar á netinu og ef fólk er búið að skrá sendingarnar hjá Póstinum fyrirfram þá gengur tollskoðunin hratt fyrir sig og fólk fær pakkana afhenta á skömmum tíma.“

Einnig voru tilkynntir síðustu öruggu skiladagar pakka og bréfa hjá póstinum en þeir eru eftirfarandi:

Síðustu öruggu skiladagar pakka:


Norðurlönd

Economy: 8. desember

Exprés og Priority: 15. desember

TNT hraðsending: 19. desember

 Evrópa

Economy: 8. desember

Exprés og Priority: 13. desember

 TNT hraðsending: 19. desember

Innanlands

Allir pakkar: 20. desember

Önnur lönd

Priority: 8. desember

TNT hraðsending: 18. desember

 

 

Síðustu öruggu skiladagar bréfa:

Innanlands

B-póstur: 18. desember

A-póstur: 20. desember

 Evrópa

B-póstur: 8. desember

A-póstur: 15. desember

Önnur lönd

A-póstur: 8. desember






Fleiri fréttir

Sjá meira


×