Handbolti

Ein af stelpunum hans Þóris grét í leikslok þrátt fyrir stórsigur í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans eru í miklu stuði.
Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans eru í miklu stuði. Vísir/Getty

Norska kvennalandsliðið í handbolta er á mikill siglingu og hefur brunað yfir þrjá fyrstu mótherja sína á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar unnu fimmtán marka sigur á Pólverjum í gær og hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína með 12,7 mörkum að meðaltali í leik.

Norsku stelpurnar voru líka allar brosandi í leikslok í gærkvöldi með einni undantekningu. Hin 24 ára gamla Emilie Christensen skar sig úr því hún barðist við tárin í leikslok.

Emilie Christensen er á sínu fyrsta stórmóti með norska landsliðinu og ætlaði heldur betur að sanna sig fyrir Þóri í leiknum í gær. Hún klikkaði hinsvegar á báðum skotum sínum í leiknum og tapaði líka einum bolta til mótherjanna. Emilie var eini leikmaður norska liðsins sem skoraði ekki fyrir utan tvo markverði liðsins.

„Það var ekki ætlunin að gráta,“ sagði Emilie Christensen við Dagbladet en hún lék í ellefu mínútur í leiknum.  Hún er leikstjórnandi Larvik HK í Noregi og hafði aðeins spilað þrjá landsleiki fyrir mótið.

„Ég æfi allt árið fyrir þetta og svo gengur ekkert upp hjá manni inn á vellinum. Ég var búin að byggja upp væntingar hjá mér sjálfri og þá getur fallið verið hátt. Það klikkaði bara allt hjá mér. Ég klikkaði á skotunum og skaut ekki þegar ég átti að skjóta. Nú er ég búin að gráta í næstum því heilan sólarhring,“ sagði Christensen þegar hún hitti blaðamann daginn eftir leikinn.

Það er mikil samkeppni um sæti í norska liðinu sem er ríkjandi heims- og Evrópumeistari og það er auðvitað mikið samkeppni um mínútur líka.

Emilie hefur farið yfir þetta með öðrum stelpum í norska liðinu og segist fá mikinn stuðning frá þeim. Nú er að sjá hvað Þórir gerir í næstu leikjum, hvort hann hafi gefist upp á henni eða ætli að gefa henni fleiri mínútur.

„Ég má ekki brjóta sjálfa mig niður. Ég verð bara að bíta á jaxlinn og gera betur í næsta leik. Þetta er engin staður eða stund til að gráta,“ sagði Emilie Christensen að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.