Skoðun

Menntamálin í forgangi

Skúli Þór Helgason skrifar
Borgarstjórn samþykkti fjárhagsáætlun komandi árs á fundi sínum á þriðjudag og endurspeglar áætlunin áframhaldandi sókn á flestum sviðum. Skóla- og frístundastarfið hefur notið ákveðins forgangs frá því hagur borgarsjóðs tók að vænkast haustið 2016. Fjármagn til málaflokksins hækkar um rúmlega 1.000 milljónir króna á næsta ári og hefur þá hækkað um 3 milljarða króna frá árinu 2016. Þá eru ekki taldar með samningsbundnar launahækkanir sem á árunum 2017 og 2018 nema hálfum öðrum milljarði og alls rúmlega 6 milljörðum króna frá árinu 2014.

Bætt starfsumhverfi

Eitt mikilvægasta verkefni okkar á þessu ári hefur verið að móta tillögur um hvernig megi bæta vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva og þar með minnka álag og auka nýliðun. Mannekla síðustu missera hefur undirstrikað hve brýnt það er að gera starfsumhverfið eftirsóknarverðara og þar þarf að gera allt í senn, bæta laun, vinnuaðstæður og fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám og skyldar greinar. Í góðu samstarfi við fulltrúa kennara, stjórnenda, foreldra og fleiri er nú verið að leggja lokahönd á tillögur til úrbóta og munu þær verða kynntar á næstunni.

Nýtt fjármagn

Á þessu ári hafa framlög til skóla- og frístundamála í Reykjavík hækkað um 2 milljarða króna sem kemur fram í bættri þjónustu á ýmsum sviðum. Þar kennir margra grasa, en veigamestu liðirnir eru inntaka yngri barna á leikskóla, tvöföldun framlaga til íslenskukennslu barna af erlendum uppruna, aukin framlög til sérkennslu, framlög til að bæta gæði skólamáltíða og faglegs starfs í leikskólum og grunnskólum. Í frístunda­starfinu má nefna sértækt klúbbastarf í félagsmiðstöðvum, gjaldfrjálsa frístund fyrir börn af erlendum uppruna og kórastarf yngri barna í frístundastarfinu svo dæmi séu tekin.

Áframhaldandi sókn framundan

Á næsta ári verður auknu fjármagni varið til leikskóla og mun það birtast með margvíslegum hætti. Leikskólar með hátt hlutfall erlendra barna fá viðbótarfjármagn, sömuleiðis leikskólar sem þurfa að samræma starfið á þremur starfsstöðvum með fjarlægð á milli. Starfsmannafundir verða tvöfalt fleiri og fjármagn aukið til starfsmanna í sértækri sérkennslu svo eitthvað sé nefnt.

Í grunnskólum hækkar framlag til almennrar kennslu, faglegs starfs og næðisstundar. Þá verður svarað kalli kennara um aukinn stuðning og úrræði til að mæta börnum með fjölþættan vanda m.a. með ráðningu hegðunarráðgjafa og talmeinafræðinga í alla borgarhluta, átaki í að bæta tölvubúnað kennara og nemenda og efla kennsluráðgjöf til að skólar geti í ríkari mæli hagnýtt kosti upplýsingatækni í sínu starfi. Síðast en ekki síst verða námsgögn í grunnskólum gjaldfrjáls frá og með næsta skólaári.

Í frístundastarfinu verður auknu fjármagni varið í félagsmiðstöðva­starf, styrki til verkefna ungmenna svo þeir geti hrint sínum hugmyndum í framkvæmd, námsleyfi starfsfólks frístundar og heilsársrekstur frístundaheimila. Þá verður áhersla lögð á að vinna að innleiðingu frístundastefnu borgarinnar sem samþykkt var í haust. Ástæða er til að vekja athygli á aukinni áherslu á listnám, verk- og tækninám sem birtist m.a. í fjölgun nemenda í skólahljómsveitum, dansverkefni í leikskólum og frístund, yngri barna kórum í frístund, Vísindasmiðjum í samvinnu við Háskóla Íslands og vinnu við mótun menningar- og útinámskráa Reykjavíkurborgar.

Síðast en ekki síst verður þróunar­sjóður skóla- og frístundasviðs tvöfaldaður á næsta ári sem er skýr vísbending um að áhersla á öfluga skólaþróun verður ríkur og vaxandi þáttur í menntastefnu borgarinnar á komandi árum.

 

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×