Erlent

Pútín sækist eftir endurkjöri

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín greindi frá ákvörðun sinni í ræðu sem hann flutti fyrir starfsmenn bílaverksmiðju í Nizhny Novgorod í dag.
Vladimír Pútín greindi frá ákvörðun sinni í ræðu sem hann flutti fyrir starfsmenn bílaverksmiðju í Nizhny Novgorod í dag. Vísir/afp
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hyggst sækjast eftir endurkjöri í rússnesku forsetakosningunum sem fram fara á næsta ári. Forsetinn greindi frá ákvörðun sinni í ræðu sem hann flutti fyrir starfsmenn bílaverksmiðju í Nizhny Novgorod í dag.

Pútín hefur verið við völd í Rússlandi frá árinu 2000, ýmist sem forseti eða forsætisráðherra. Beri hann sigur úr býtum í kosningunum í mars verður hann við völd til ársins 2024.

Rússneska sjónvarpsfréttakonan Ksenia Sobchak hefur þegar tilkynnt að hún gefi kost á sér í kosningunum, en kannanir benda til að Pútín muni landa öruggum sigri.

Helsti stjórnarandstæðingur landsins, Alexei Navalny, hefur verið meinað að bjóða sig fram þar sem hann hafi verið fundinn sekur um fjárdrátt. Navalny segir hins vegar að pólitískir andstæðingar hans hafi staðið fyrir ákærum á hendur honum.

Pútín nýtur mikils stuðnings meðal Rússa, sem telja hann vera sterkan leiðtoga sem hafi lagfært ímynd og stöðu Rússlands í alþjóðasamfélaginu, meðal annars með hernaðarlegri þátttöku landsins í stríðinu í Sýrlandi og með innlimun Krímskaga.

Andstæðingar hans saka forsetann hins vegar um spillingu og að hafa innlimað Krímskaga með ólöglegum hætti. Innlimunin hefur víða verið fordæmd af alþjóðasamfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×