Viðskipti innlent

Breytingar hjá Vodafone vegna samrunans

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Höfuðstöðvar Vodafone að Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Vodafone að Suðurlandsbraut. Aðsend/Vodafone
Nýtt skipurit tók gildi hjá Fjarskiptum hf. eftir samrunann við 365 þann 1. desember síðastliðinn og voru gerðar nokkrar breytingar. Allur hluti 365 færðist yfir til Vodafone að frátöldu Fréttablaðinu og Glamour. Stöð 2, Bylgjan, X-ið, FM957, Vísir auk tilheyrandi auglýsinga- og áskriftardeilda færast yfir til Vodafone. Eins og áður hefur verið tilkynnt er Björn Víglundsson nú framkvæmdastjóri Miðla sem er nýtt svið hjá Vodafone. Björn hefur starfað hjá Vodafone frá árinu 2005, fyrst sem framkvæmdastjóri Markaðssviðs, þá framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs og nú síðast framkvæmdastjóri Sölu & þjónustusviðs.

„Áður starfaði Björn hjá Toyota á Íslandi og Tryggingamiðstöðinni. Björn er menntaður viðskiptafræðingur frá University of Tampa í Bandaríkjunum. Hann er giftur Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka Ferðaþjónustunnar og eiga þau þrjú börn.

Þorvarður Sveinsson er nýr framkvæmdastjóri Fyrirtækja og þróunar en hann hefur starfað hjá Vodafone frá 2015. Samkvæmt tilkynningu frá Fjarskiptum hf. hefur Þorvarður leitt stærri þróunarverkefni félagsins sem yfirmaður stefnumótandi verkefna og er stjórnarformaður Vodafone Færeyja.

„Áður starfaði Þorvarður að þróunarmálum hjá Skiptum og Klakka og sem verkefnastjóri hjá Kögun auk þess að hafa setið í stjórnum fjölda fyrirtækja. Þorvarður er menntaður fjarskiptaverkfræðingur frá Harvard University.  Hann er giftur Margréti Helgu Ögmundsdóttur, rannsóknasérfræðingi hjá Háskóla Íslands og eiga þau þrjú börn.

Ragnheiður Hauksdóttir er nú framkvæmdastjóri Einstaklinga. „Ragnheiður hefur starfað hjá Vodafone frá 2004. Fyrst sem forstöðumaður fyrirtækjalausna, síðan forstöðumaður þjónustuvers og nú síðast forstöðumaður notendakerfa á tæknisviði. Ragnheiður er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er gift Sævari Smára Þórðarsyni rekstrariðnfræðingi og eiga þau fjögur börn,“ segir í tilkynningunni.

Starfsmenn hjá Vodafone eftir kaupin á stórum hluta 365 eru samanlagt 550 manns en stefnt er að því að öll starfsemi Vodafone verði á Suðurlandsbraut 8 innan tíðar.

Vísir.is er í eigu Vodafone.


Tengdar fréttir

Tíu milljarða viðskipti

Vodafone tekur í dag við rekstri útvarps- og sjónvarpssviðs 365 ásamt visir.is og fjarskiptasviði 365.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×