Innlent

Vill að hluti námslána breytist í styrk svo fólk ljúki námi á réttum tíma

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra vill að hluti námslána breytist í styrk ef nemendur ljúka háskólanámi á réttum tíma en íslenskir háskólanemar eru mun lengur í námi en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum. Þá vill hún minnka brotthvarf úr framhaldsskólum með því að efla iðnnám og ýta undir fjölbreyttara námsval.

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna fær fljúgandi start samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Sjötíu og átta prósent aðspurðra segjast styðja ríkisstjórnina en tuttugu og tvö prósent eru á móti henni.

Lilja Alfreðsdóttir, nýr menntamálaráðherra, segir að eitt af forgangsverkefnum hennar verði efling háskólastigsins en Ísland er undir meðaltali OECD-ríkjanna varðandi fjármögnun þess.

„Það sem við erum að gera núna er að styrkja háskólastigið og framhaldsskólastigið. Við ætlum að ná OECD-meðaltalinu, varðandi fjárframlög á hvern nemenda, á þessu kjörtímabili. Þannig að það verður eitt af fyrstu verkum okkar ásamt því að stuðla að umbótum á háskólastiginu,“ segir Lilja. 

Íslenskir háskólanemar eru mun lengur í námi en evrópskir jafnaldrar þeirra. Menntamálaráðherra segir að hafa megi áhrif á námsframvindu með því að setja upp hvata í námslánakerfinu. 

„Það er hugsanlega hægt að nýta námslánakerfið til að búa til fjárhagslega hvata þannig að hluta af námslánum væri hægt að breyta í styrk ef nemendur ljúka námi á tilsettum tíma,“ segir Lilja. 

Þessi hugmynd er skyld útfærslu í námslánafrumvarpi Illuga Gunnarssonar, þáverandi menntamálaráðherra, sem var lagt fram vorið 2016 en náði ekki fram að ganga. Á þessum hugmyndum er þó eðlismunur því í frumvarpi Illuga var gert ráð fyrir styrkjum til náms óháð lántöku. Í frumvarpi hans, sem var stöðvað í málþófi á Alþingi, var gert ráð fyrir 65 þúsund króna námsstyrk á mánuði í alls 45 mánuði sem svaraði til fimm skólaára. Var það óháð námstegund, hvort sem um var að ræða háskólanám eða iðnnám. Höfðu námsmenn val samkvæmt frumvarpinu um að taka eingöngu styrk eða styrk og lán eða jafnvel lán að hluta. 

Brotthvarf og rótleysi á framhaldsskólastiginu

Brotthvarf úr framhaldsskólum og rótleysi framhaldsskólanema er miklu meira vandamál hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er vikið að eflingu iðnnáms. Lilja segir að þetta kunni að vera tengt, minni eftirspurn eftir iðnnámi og brotthvarf úr framhaldsskólum.

„Eitt af því sem við sjáum er að það eru mun færri sem eru að útskrifast úr iðn- og verknámi á Íslandi en í Noregi. Við verðum að finna skýringuna á þessu og finna leiðir til að efla iðn- og starfsmenntun á Íslandi því það getur ekki verið þannig að um 12 prósent séu að útskrifast úr þessu námi á Íslandi en um 40 til 50 prósent í Noregi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. 

Alþingi verður kemur saman hinn 14. desember næstkomandi og er stefnt að því að dreifa fjárlagafrumvarpi næsta árs þann dag. Að kvöldi þess dags flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnuræðu sína og verða í kjölfarið umræður um hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×