Erlent

Abbas segir Bandaríkin vera að draga sig úr friðarferlinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 82 ára Mahmoud Abbas hefur gegnt embætti forseta Palestínumanna frá árinu 2005.
Hinn 82 ára Mahmoud Abbas hefur gegnt embætti forseta Palestínumanna frá árinu 2005. Vísir/afp
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, segir að Bandaríkin geti ekki gegnt hlutverki sáttasemjara í deilu Palestínumanna og Ísraela eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að Bandaríkin viðurkenni nú Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Abbas sem hann sendi frá sér í kjölfar ræðu Trump fyrr í kvöld. Abbas segir að yfirlýsing Trump sé í raun „yfirlýsing um úrsögn“ úr friðarviðræðum og grafi undan öllu friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Trump lýsti í kvöld yfir að hann hafi beint þeim orðum til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að hefja þegar í stað undirbúning flutnings sendiráðs Bandaríkjanna í Ísrael frá Tel Avív til Jerúsalem. Hann sagði að Bandaríkin myndu styðja tveggja ríkja lausn í deilunni, ef bæði Ísraelar og Palestínumenn væru henni samþykk.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði daginn sögulegan og kvaðst hann vera þakklátur Trump forseta.

Mikið hefur verið deilt um stöðu Jerúsalem alla tíð frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948 en öll stóru trúarbrögðin þrjú á svæðinu, íslam, gyðingdómur og kristindómur líta á hana sem heilaga borg. Hún var hernumin af Ísraelum í Sex daga stríðinu 1967 og innlimuð í Ísrael 1980.

Ekkert sendiráð er nú staðsett í Jerúsalem en alls má finna 86 sendiráð erlendra ríkja í Tel Avív.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í samtali við fréttamenn fyrr í kvöld að Frakklandsstjórn styðji ekki ákvörðun Trump og hvatti hann til friðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×