Erlent

Berset yngsti forseti Sviss í heila öld

Atli Ísleifsson skrifar
Alain Berset er fulltrúi Sósíalista í svissneska sambandsráðinu.
Alain Berset er fulltrúi Sósíalista í svissneska sambandsráðinu. Vísir/afp
Svissneska sambandsþingið kaus í dag innanríkisráðherrann Alain Berset til að gegna forsetaembætti landsins næsta árið. Embættið er ekki valdamikið, en hinn 45 ára Berset verður yngsti forseti landsins í heila öld.

Kjör Sósíalisans Alain Berset kom ekki á óvart þar sem hann var næstur í röðinni til að gegna embættinu af þeim sjö sem sæti eiga í sambandsráðinu svokallaða. Þeir sem sæti eiga í ráðinu skiptast á að gegna embætti forseta, til eins árs í senn.

Berset tók sæti í sambandsráðinu árið 2011 og hlaut samtals 190 af 210 greiddum atkvæðum á svissneska sambandsþinginu í dag. Hann tekur við embættinu af orkumálaráðherranum Doris Leuthard, sem er fulltrúi Kristilegra demókrata í sambandsráðinu.

„Þetta er mikill heiður og mikil ábyrgð,“ sagði Berset á þinginu eftir atkvæðagreiðsluna. Berset lét orðin falla á öllum fjórum opinberum tungumálum Sviss: þýsku, frönsku, ítölsku og retórómönsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×