Erlent

Berset yngsti forseti Sviss í heila öld

Atli Ísleifsson skrifar
Alain Berset er fulltrúi Sósíalista í svissneska sambandsráðinu.
Alain Berset er fulltrúi Sósíalista í svissneska sambandsráðinu. Vísir/afp

Svissneska sambandsþingið kaus í dag innanríkisráðherrann Alain Berset til að gegna forsetaembætti landsins næsta árið. Embættið er ekki valdamikið, en hinn 45 ára Berset verður yngsti forseti landsins í heila öld.

Kjör Sósíalisans Alain Berset kom ekki á óvart þar sem hann var næstur í röðinni til að gegna embættinu af þeim sjö sem sæti eiga í sambandsráðinu svokallaða. Þeir sem sæti eiga í ráðinu skiptast á að gegna embætti forseta, til eins árs í senn.

Berset tók sæti í sambandsráðinu árið 2011 og hlaut samtals 190 af 210 greiddum atkvæðum á svissneska sambandsþinginu í dag. Hann tekur við embættinu af orkumálaráðherranum Doris Leuthard, sem er fulltrúi Kristilegra demókrata í sambandsráðinu.

„Þetta er mikill heiður og mikil ábyrgð,“ sagði Berset á þinginu eftir atkvæðagreiðsluna. Berset lét orðin falla á öllum fjórum opinberum tungumálum Sviss: þýsku, frönsku, ítölsku og retórómönsku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.