Innlent

Umdeilt dómskerfi á fleygiferð

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Karl Axelsson og Benedikt Bogason hæstaréttardómarar á fundi Dómarafélagsins á dögunum.
Karl Axelsson og Benedikt Bogason hæstaréttardómarar á fundi Dómarafélagsins á dögunum. vísir/anton brink
Búast má við viðburðaríku ári hjá dómstólum landsins. Nýtt dómstig tekur til starfa 1. jan­úar næstkomandi og í kjölfarið mun starfsemi Hæstaréttar taka miklum breytingum. Auk þessara kerfisbreytinga þarf dómskerfið að takast á við mjög erfið og umdeild mál á komandi ári.

Má þar nefna annars vegar meiðyrðamál sitjandi dómara í Hæstarétti gegn fyrrverandi hæstaréttardómara; mál sem gera má ráð fyrir að allir skipaðir dómarar landsins verði vanhæfir til að dæma í.

Hins vegar þarf Hæstiréttur að takast á við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála en margir hafa haft á orði að þar sé réttarkerfið sjálft, og þar með talinn Hæstiréttur sjálfur, fyrir rétti.

Pólitískur titringur

Þessar áskoranir þarf dómskerfið að takast á við í skugga neikvæðrar umræðu um dómara og dómskerfið sjálft. Af ýmsu er að taka í þeim efnum. Fyrst er að nefna bæði póli­tískan titring og lagalegan ágreining sem skipun dómara við Landsrétt hleypti af stað. Deilt er um lögmæti skipunarinnar fyrir dómstólum og enn er beðið endanlegrar niðurstöðu þeirra mála á æðra dómstigi.

Þá hefur fréttaflutningur af launahækkunum og hlutabréfaeign dómara valdið titringi bæði innan og utan réttarkerfisins, en í kjölfar umfjöllunar um hlutabréfaeign dómara hafa bæði Lögmannafélagið og Ríkissaksóknari lýst efasemdum um hæfi dómara í tilteknum sakamálum sem varða föllnu bankana.

Síðast en ekki síst lætur hinn óþægi fyrrverandi hæstaréttardómari Jón Steinar Gunnlaugsson sér ekki segjast og gefst ekki upp á að gagnrýna starfshætti í Hæstarétti.

Mikil umræða um dómkerfið

„Ég verð að segja að Jón Steinar hefur afar lítil áhrif á umræðuna á okkar vettvangi,“ segir Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og nýr formaður Dómarafélags Íslands, um gagnrýni Jóns Steinars. „En hann hefur auðvitað velt upp fjöldanum öllum af álitamálum á löngum ritferli sínum um réttarkerfið og margt sem hann hefur tæpt á eru viðfangsefni sem hafa verið skoðuð sérstaklega,“ segir Ingibjörg.

Hún bendir á að sjaldan hafi átt sér stað jafnmikil umræða um dómskerfið og um þessar mundir og nefnir álagið á Hæstarétt, þörf fyrir alvöru áfrýjunardómstól og umbætur í stjórnsýslu dómstólanna.

„Þetta eru allt hlutir sem hafa verið gagnrýndir og meðal annars af Jóni Steinari. Núna stöndum við á þeim tímamótum að það er verið að ráðast í miklar kerfisbreytingar sem vonandi færa margt af þessu til betri vegar,“ segir Ingibjörg og tekur Hæstarétt sem dæmi.

Gjörbreyttur Hæstiréttur

„Hæstiréttur verður allt annars konar stofnun sem æðsti dómstóll landsins. Fimmtán nýir dómarar taka til starfa á nýju dómstigi sem verður raunverulegur áfrýjunardómstóll þar sem hægt er að endurmeta sönnunargildi allra sönnunargagna. Þetta eru auðvitað stórkostlegar breytingar,“ segir Ingibjörg og nefnir einnig stjórnsýsludómstólana.

„Það er verið að setja á stofn nýja sjálfstæða stjórnsýslustofnun; dómstólasýsluna í stað hins veikburða dómstólaráðs sem verður lagt niður. „Þetta er til marks um að dómskerfið er í þróun og á fleygiferð,“ segir Ingibjörg.

Meðal þess sem Jón Steinar Gunnlaugsson hefur gagnrýnt í bókum sínum og almennri umfjöllun um störf dómara er tregða dómara til að taka þátt í opinberri umræðu um dómarastörf og sjónarmið að baki dómsniðurstöðum. Aðspurð segir Ingibjörg erfitt fyrir dómara starfa þeirra vegna að taka of virkan þátt í hinni almennu umræðu.

„En kannski hafa dómarar verið of ragir við það,“ segir Ingibjörg og bætir við: „Ég er sammála því að það er ómögulegt að dómskerfið sem slíkt svari ekki málefnalegri gagnrýni. Annað getur maður þurft að láta fram hjá sér fara, en auðvitað ætti að vera til vettvangur fyrir þá sem óska eftir málefnalegri umræðu um dómskerfið.“

Hún segir það visst einkenni á dómskerfinu að dómarar tali í gegnum dóma sína og með rökstuðningi sínum.

„En við höfum kannski verið of lokuð, það kann vel að vera. Hér í Danmörku til dæmis er dómari sem bloggar um dómarastarfið,“ segir Ingibjörg sem er í námsleyfi í Danmörku um þessar mundir.


Tengdar fréttir

Fordæmdi fréttir um dómara

Formaður Dómarafélags Íslands gerði fjölmiðlaumfjöllun um dómara að aðalefni setningarræðu sinnar á aðalfundi félagsins í gær. Fullyrti þvert á niðurstöðu siðanefndar Blaðamannafélagsins og Fjölmiðlanefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×