Gagnrýni

Kvíddu ekki því því

Brynhildur Björnsdóttir skrifar

Bækur
Skuggarnir
Stefán Máni
Útgefandi: Sögur útgáfa
Kápa: Kontór Reykjavík
Prentun: Prentuð í Lettlandi
Fjöldi síðna: 315

Fáir íslenskir rithöfundar hafa hætt sér út á mið hryllingssagnanna í sama mæli og Stefán Máni. Allt frá því önnur bók hans, Myrkravél, kom út árið 1999, hefur hann kannað hið myrka innra með manninum, meðal annars með því að skrifa um fólkið á jaðri samfélagsins og undirheimana. Hann hefur upp á síðkastið einnig daðrað við hið yfirnáttúrulega og skemmst er að minnast sögunnar Svartigaldur sem kom út í fyrra. Í bókinni Skuggarnir sem hér um ræðir rær Stefán Máni hins vegar út á hið yfirnáttúrulega haf, á miðin þar sem þjóðsögurnar og hrollvekjurnar mætast, og hittir fyrir eina sorglegustu og grimmustu óvættina þar.

Sagan hefst á því að leikskólakennarinn Kolbrún og ljósmyndarinn Timmi leggja fótgangandi af stað til að finna eyðibýli á Melrakkasléttu sem Timmi ætlar að taka myndir af til að endurreisa ljósmyndaferil sinn. Við fyrstu sýn virðast þau eins og hvert annað kærustupar sem hefur ákveðið að eiga saman rómantíska gönguferð í fagurri náttúru, símalaus til að njóta samvistanna enn betur, en samband þeirra reynist flóknara en lítur út fyrir og einnig hafa þau sína djöflana hvort að draga sem einfalda ekki málin. Frásögnin flakkar í tíma og smám saman kemur í ljós raunverulegur tilgangur þeirra með ferðinni.

Stefán Máni nær að tengja saman valkosti og sársauka nútímakonunnar og kvenna fyrr á öldum á áhrifaríkan hátt og nýtir sér hiklaust orðaforða femínismans um feðraveldi og kvenfrelsi á afdráttarlausan hátt. Bókin er vel skrifuð og fléttuð, mjög spennandi á köflum og afskaplega óhugnanleg á öðrum.

Það sem mætti helst telja til hnökra er jafnframt kostur; Stefán Máni hefur svo mikið vald á lýsingum á umhverfi, persónum og andrúmslofti að stundum er eins og verið sé að horfa á kvikmynd við lestur bóka hans, lesandinn sér ljóslifandi fyrir sér skotin og hvernig hver fersentimetri af leikmyndinni myndi líta út. Stundum verða þessar lýsingar svo góðar að það verður nánast hægt að sjá kvikmyndagerðina fyrir sér sem verður til þess að tækniatriði frásagnarinnar þvælast fyrir framvindunni sem er miður því Stefáni Mána fer bæði vel stílbragðaleikur og fléttusmíð.

Hryllingurinn er áþreifanlegur til að byrja með en fer undir lokin út í fantasíu þar sem mörkin milli raunveruleika og ímyndunar hverfa. Þótt söguþráðurinn sé vel hugsaður að flestu leyti eru einstöku atriði sem ekki ganga alveg upp. Sumt á að vera órætt og þeir hlutar eru vel gerðir en sumstaðar er eins og persónubyggingin hafi breyst í miðri á og þá er gripið til einfaldra skýringa sem ekki ganga alveg upp. Þetta skemmir alls ekki lestrarupplifunina en er kannski óþarfi hjá höfundi með slíkt vopnabúr á valdi sínu.

Ekki verður svo komist hjá því að nefna kápuhönnunina en síðustu bækur Stefáns Mána hafa vakið mikla athygli fyrir fallega hönnun. Þessi bók er afskaplega falleg og eiginlega synd að setja hana upp í hillu að lestri loknum heldur ætti hún heima á kaffiborði eða þar sem falleg hönnunin nýtur sín. Það er auglýsingastofan Kontór sem er skráð fyrir kápuhönnuninni en sömu aðilar gerðu kápuna að bók Stefáns Mána, Svartagaldri, í fyrra sem einnig vakti mikla athygli.

Niðurstaða: Vel skrifaður hryllingur sem tengir saman þjóðsögurnar og hlutskipti kvenna fyrr og nú.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.