Skoðun

Skömmin er samfélagsins, ekki einstaklinganna

Fríða Rós Valdimarsdóttir skrifar
Árið 2012 var ákveðið á Suðurnesjum að taka heimilisofbeldi á svæðinu föstum tökum þar sem augljóslega þjáðust margir vegna þeirra brota. Lögregla, félagsþjónusta, barnavernd, heilbrigðisstofnanir og aðrir tóku sig saman og fundu leið til að vinna málin saman náið saman með það að markmiði að uppræta heimilisofbeldi. Úr varð verkefnið „Að halda glugganum opnum“. Svo vel tókst til að tveimur árum síðar innleiddi Ríkislögreglustjóri reglur sem skylda lögreglu í landinu að vinna með heimilisofbeldismál í samræmi við það verklag sem þróað var á Suðurnesjum.

Verklagið hefur ekki verið innleitt um allt land og ákvað Jafnréttisstofa að leggja af stað með verkefni sem gengur út á að styrkja kerfið um allt land til að takast á við heimilisofbeldismál – öll kerfin saman í sameiningu. Verkefnið heitir Byggjum brýr Brjótum múra og vísar í að milli kerfa þarf að mynda tengsl og fella niður gamlar hefðir þar sem hvert kerfi vinnur í sínu horni. Því það er svo sannarlega hægt.

Jafnréttisstofa tekur hlutverki sínu í ofbeldismálum mjög alvarlega. Samkvæmt lögum á stofnunin að sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi tengda kynbundnu ofbeldi, vera ráðgefandi fyrir þau sem leita til hennar, vinna að forvörnum í kynbundnu ofbeldi og fylgjast með þróun mála meðal annars með upplýsingaöflun og rannsóknum.

Ef litið er til síðustu 10 ára þá má sjá augljósan ávinning vinnulagsins „Að halda glugganum opnum“. Á árunum áður en verklagið var sett á, sem sagt á árunum 2007 til 2014, voru tilkynningar um heimilisofbeldi að meðaltali 26 mál á mánuði á landinu öllu. Meðaltalið er svo komið upp í 69 mál frá 2015 og það sem af er ári 2017. Ekkert bendir til að heimilisofbeldi hafi aukist á þessu tímabili heldur er með aukinni samvinnu hægt að koma þolendum og gerendum til aðstoðar. Það er reynsla lögreglunnar að nánast allir vilja þeir að ofbeldið hætti.

Á Íslandi í dag er mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og hefur Jafnréttisstofa ekki farið varhluta af því. Þráðurinn í þeirri vakningu er að breyta samfélaginu til framtíðar með því að breyta menningu þar sem kynbundið ofbeldi er ekki lengur umborið.

Byggjum brýr Brjótum múra vill koma þeim skilaboðum til almennings að allt heimilisofbeldi á að tilkynna. Að það þurfi ekki að ríkja skömm gagnvart ofbeldi. Heimilisofbeldi er samfélagslegt vandamál og við þurfum að taka á því sem slíku. Til þess að uppræta vandmálið verðum við að vinna saman því kynbundið ofbeldi á aldrei rétt á sér.

Höfundur er sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu.

 




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×