Lífið

Ljóð í tísku þessa stundina

Guðný Hrönn skrifar
Valgerður segir ljóð vera eins og D-vítamín.
Valgerður segir ljóð vera eins og D-vítamín.

Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu er ein þeirra sem fylgjast vel með því sem er að gerast í ljóðaheiminum og hún verður þess vör að ljóð séu að verða æ vinsælli. „Ég les mikið af ljóðum. Og það hefur verið dásamlegt að fara í ljóðamó í haust. Hver bókin á eftir annarri hefur verið sérlega forvitnileg.“

Valgerður segir margar af þeim ljóðabókum sem hún hefur lesið undanfarið eiga það sameiginlegt að myndmálið er áberandi flott og ljóðin eru frumleg, fersk og grípandi. „Mörg skáld af yngri kynslóðinni eru að blómstra núna á einhvern heillandi hátt og það er athyglisvert hvað þau eru óhrædd við að snerta þessa lýrísku taug.“

Hún er sammála því að tíska ljóðanna komi í bylgjum og virðist vera í einhverju hámarki núna. „Mér finnst sífellt fleiri, ekki síst ungir lesendur, vera að átta sig á að ljóð er galdur sem eftirsóknarvert er að kynna sér. Ljóð er einmitt það sem við þurfum dag hvern, rétt eins og D-vítamínið,“ segir Valgerður glöð í bragði. „Eða eins og Dagur Hjartarson orðaði það fyrir stuttu: „Ljóðið er eins og útsýnispallur yfir líf manns.“ Við þurfum öll útsýnispall til að skynja heiminn og skilja,“ segir Valgerður og hvetur til útsýnispallakaupa í bókabúðum.

Spurð um hvað hún haldi að sé að valda þessum uppgangi í ljóðaheiminum segir Valgerður: „Það kemur nú ugglaust margt til. En manni verður ósjálfrátt hugsað til Sigurðar heitins Pálssonar skálds. Hann var leiðbeinandi í Meistaranámi í ritlist við HÍ og ég hef verið að velta fyrir mér áhrifunum sem hann hann hefur mögulega haft á mörg þessara ungu skálda sem kynntust honum.“

„Ég hafði sjálf Sigga sem kennara í kvikmyndafræðum uppi í HÍ á sínum tíma og hann hafði feikileg áhrif á mig, bæði hvernig ég skoðaði texta og bíó æ síðan.“
„Hann var stórkostlegur leiðbeinandi og maður hreinlega upptendraðist af því að vera samvistum við hann. Og það er einmitt eitt unga skáldið í haustbókaflóðinu, Fríða Ísberg, sem þakkar Sigurði í lok sinnar bókar fyrir „upptendrunina“. Ég veit nákvæmlega hvað hún á við.“

Skemmtileg og fjölbreytt sena

Ljóðskáldið Fríða Ísberg er fædd 1992 og hún er ein af þeim sem eiga ljóðabók í bókaflóru haustsins, bókina Slitförin. Aðspurð hvernig hún byrjaði að semja ljóð kveðst hún hafa skrifað ljóð síðan hún var barn. „Ég hef reyndar alltaf verið að skrifa ljóð. Ég man ekki eftir mér án þess að hafa verið að skrifa ljóð. Ég er algjörlega af tölvukynslóðinni og þegar pabbi sá að ég var að safna í ljóðamöppu þá kynnti hann mig fyrir ljod.is. Þannig að þar má finna fullt af ljóðum eftir mig, eftir svona 10 ára gamla Fríðu,“ segir hún og hlær.

Fríða segir ljóðasenuna sem er í gangi núna vera áhugaverða og að flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Ljóðasenan er ótrúlega skemmtileg í augnablikinu og ég myndi segja að á henni væru margir angar. Meðgönguljóð hafa verið mest áberandi fyrir ungskáldin í dag en svo eru skáld alltaf dugleg við að rotta sig saman.“

Fríða bætir við að það sé þó mikilvægt að einhver taki við stýrinu hverju sinni svo að ljóðasenan nái að blómstra. „Það er gott þegar það er einhver hattur sem fólk getur sótt í, fólk sem hefur verið í sínu horni að semja ljóð. Á síðustu fimm árum, frá því að ég byrjaði að sækja ljóðasenuna, hafa ýmsir hópar verið virkir; Meðgönguljóð kannski mest áberandi, Blek­fjelagið – félag ritlistarnema við HÍ, Fríyrkjan og grasrótarforlagið Lús, Ós Pressan og fleiri.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.