Erlent

Ungverskur Evrópuþingmaður ákærður fyrir njósnir fyrir Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Bela Kovacs segist fagna því að fá loksins að verja sig fyrir dómi og setja ásakanirnar til hliðar.
Bela Kovacs segist fagna því að fá loksins að verja sig fyrir dómi og setja ásakanirnar til hliðar. Vísir/EPA
Saksóknarar í Ungverjalandi hafa ákært Evrópuþingmann Jobbik-flokksins fyrir að njósna um Evrópusambandið fyrir Rússa. Þingmaðurinn neitar sök og segir að ákæran hafi vísvitandi verið tímasett til að skaða flokk sinn í kosningum í vor.

Rannsókn á Bela Kovacs frá þjóðernisflokknum Jobbik hefur staðið yfir í tvö ár eftir að Evrópuþingið felldi friðhelgi hans sem þingmanns úr gildi. Saksóknarar segja að Kovacs sé meðal annars ákærður fyrir njósnir um Evrópusambandið, skjalafals og fjársvik.

Jobbik-flokkurinn hefur átt vaxandi vinsældum að fagna í skoðanakönnunum undanfarið. Hann mælist nú næststærsti flokkurinn á eftir Fidesz-flokki Viktors Orban forsætisráðherra, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Kovacs telur að ákærunni sé ætlað að koma höggi á Jobbik fyrir kosningarnar. Hann hefur sagt sig úr flokknum til þess að reyna að draga úr skaðanum fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×