Lífið

Ný plata með Tappa Tíkarrass: Svo gaman að þeir gátu ekki stoppað

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Strákarnir fóru saman út að borða og eitt leiddi af öðru og nú er komin heil plata.
Strákarnir fóru saman út að borða og eitt leiddi af öðru og nú er komin heil plata. Vísir/Anton Brink

„Við byrjuðum að hittast að gamni okkar fyrir að verða þremur árum og rifja upp þessi lög sem við sömdum þegar bandið var að byrja. Þá vorum við bara fjórir og Björk ekki komin í sveitina. Á þessu tímabili sömdum við alveg helling af lögum sem síðan duttu út þegar Eyþór hætti. Þegar við vorum búnir að rifja þetta allt upp fórum við í að semja nýtt. Svo spiluðum við á tónleikunum Fullveldispönk fyrir um ári og fórum í framhaldi af því í stúdíó og vorum bara allt í einu búnir að taka upp fjórtán lög?… þetta bara gerðist eiginlega – þetta var svo gaman að við bara gátum ekki stoppað,“ segir Jakob Smári Magnússon, bassaleikari og einn stofnenda hinnar goðsagnakenndu pönkhljómsveitar Tappa Tíkarrass.

Í dag skipa sveitina, fyrir utan Jakob Smára, Eyþór Arnalds sér um sönginn, Eyjólfur Jóhannsson á gítar og Guðmundur Þór Gunnarsson á trommunum.

„Við erum náttúrulega gamlir vinir sem svo fóru hver í sína áttina. Bandið var upphaflega stofnað í kringum vináttu okkar. Við fórum út að borða, þá kom þessi hugmynd. Við hringdum í Gumma trommara og fundum æfingapláss, svo var bara talið í og ekki aftur snúið.“

Allir hafa þeir komið að tónlist eftir að Tappi Tíkarrass lagði upp laupana. Jakob Smári og Guðmundur voru saman í Das Kapital, Jakob og Eyjólfur í SSSól og svo var Jakob með í Todmobile á upphafsárum sveitarinnar en Eyþór var auðvitað þar líka.

„En eftir að við hættum að spila saman, þá hættum við að hittast, það er eins og að við þurfum músíkina til að tengja okkur – til að við höfum ástæðu til að hittast.“

Jakob segir það nokkuð hressandi að dunda sér svona við tónlistina í hjáverkum.

„Það er svo langt síðan maður hefur verið í svona bandi, þar sem menn koma bara saman og kasta fram einhverjum lagbút eða hugmynd og svo eru allir saman að semja. Maður er ekki að spila fyrir aðra. Þetta hefur maður ekki gert síðan að Sólin [SSSól] var að byrja – menn mættu með eitthvert riff og svo var unnið út frá því. Það eru líka engar kvaðir – það er ekkert verið að hugsa um að við þurfum að koma með einhvern „hittara“ fyrir sumarið eða eitthvað, heldur bara gera það sem okkur finnst skemmtilegt.

Á plötunni er sambland laga frá upphafsárum Tappa Tíkarrass, laga sem komu út áður en Björk gekk í sveitina og þau gáfu út sína fyrstu EP-plötu, og nýrra laga sem þeir hafa verið að brugga upp á síðkastið.

„Það eru fjögur gömul sem voru samin 1981 og síðan eru tíu ný. Þau blandast bara mjög vel saman, ég er ekkert viss um að fólk átti sig á því hvort eru gömlu og hvort eru nýju lögin. Reyndar er eitt lag þarna sem heitir það sama og fyrsta platan okkar, Bitið fast í vitið, en lagið var ekki á plötunni – en það er í raun eina tengingin við síðustu öld.“

Platan kemur út í dag og nefnist hún einfaldlega Tappi Tíkarrass. Hún verður fáanleg á geislaplötu og vínyl. Tappinn stefnir á að fagna útgáfunni í janúar með tónleikum en það er engin dagsetning komin á þann fagnað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.