Enski boltinn

Fá ekki að mynda á Old Trafford

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Knattspyrnustjórar Manchester-liðanna, Jose Mourinho og Pep Guardiola.
Knattspyrnustjórar Manchester-liðanna, Jose Mourinho og Pep Guardiola. vísir/getty
Einn stærsti leikur tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni fer fram á sunnudaginn þegar barist verður um Manchester-borg.

Manchester United fær nágrannana í Manchester City í leik sem er alltaf stórleikur, en einstaklega þýðingarmikill í ár þar sem City kemst í ellefu stiga forystu í deildinni með sigri, og í raun setur aðra hendina á Englandsmeistaratitilinn.

Þjálfararnir eru strax byrjaðir í sálfræðihernaðinum, og hernaðurinn endar ekki þar. Forráðamenn United hafa hafnað beiðni City um að koma með myndatökumenn á Old Trafford á sunnudag.

Teymi frá Amazon hefur fylgt Pep Guardiola og hans mönnum allt tímabilið þar sem unnið er að heimildarmynd um hvað gerist á bak við tjöldin hjá City.

Forráðamenn City sendu inn formlega beiðni til United og ensku úrvalsdeildarinnar þar sem beðið var um aðgang að leikmannagöngunum og búningsherbergjum gestanna, en henni var hafnað. Ástæða höfnunarinnar var sú að ekki væri nóg pláss, þar sem nú þegar eru 23 rétthafar með aðgang að svæðinu. Samt eru göngin á Old Trafford og svæðið þar í kring með því stærsta í ensku úrvalsdeildinni, og ekkert félag hefur neitað aðgangi til þessa.

Enska úrvalsdeildin sagðist vita af ágrenninginum, en ætlar ekki að skipta sér af, þetta sé algjörlega í höndum United.

Ensku rétthafarnir Sky Sports og BT Sport kunna að vera mjög ánægðir með þessa ákvörðun United, en þeir borguðu 5,1 milljarð punda fyrir sjónvarpsréttinn á úrvalsdeildinni á árunum 2016-19. Aðgangur að búningsherbergjum liðanna er ekki inni í þeim pakka, og eru ýmsar fleiri takmarkanir á rétt þeirra.


Tengdar fréttir

Mourinho trúir ekki því sem Pep segir

Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, byrjaði sálfræðihernaðinn fyrir leikinn gegn Man. City um næstu helgi um leið og hann var kominn með sitt lið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×