Erlent

Rússar segja markmiðinu náð í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskum herflugvélum flogið yfir Sýrlandi.
Rússneskum herflugvélum flogið yfir Sýrlandi. Vísir/AFP

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að því markmiði að sigra og rekja vígamenn Íslamska ríkisins á brott í Sýrlandi hafi náðst. Rússar segja að landið hafi verið frelsað af fullu frá ofstækismönnunum. Ekki sé eitt þorp eða hérað þar sem hryðjuverkasamtökin séu enn við völd.

„Markmið herafla Rússlands, að sigra hópa hryðjuverkamanna ISIS í Sýrlandi hefur náðst,“ sagði herforinginn Sergei Rudskoi samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Í frétt TASS, fréttaveitu í eigu rússneska ríkisins, er haft eftir Rudskoi að her Bashar al-Assad vinni nú að því að hreinsa jarðsprengjur og gildrur í kringum þá síðustu bæi sem ISIS-liðar stjórnuðu.

Rússar hófu aðgerðir sínar í Sýrlandi í september árið 2015 og beittu loftárásum til stuðnings Assad, sem þá átti undir högg að sækja. Íranar hafa einnig aðstoðað Assad verulega og hefur hann tryggt stöðu sína verulega.

Rudskoi hélt því einnig fram að á hverjum degi hefðu minnst hundrað flugvélar verið notaðar til allt að 250 loftárása á dag í Sýrlandi. Á sama tíma hefðu sérsveitir Rússa tekið þátt í aðgerðum á jörðu niðri.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem fylgst hafa náið með átökunum í Sýrlandi, segja þó að ISIS stjórni enn um átta prósentum Deir Ezzor-héraðs. Rudskoi sagði að mögulega væru vígamenn ISIS enn á sveimi en að stjórnarher Sýrlands myndi berjast gegn þeim. Mögulegt þykir að þar hafi hann gefið í skyn að Rússar ætli að draga úr aðgerðum sínum í landinu.

Minnst 340 þúsund manns hafa dáið í átökunum í Sýrlandi frá þau hófust í mars 2011. Rússar hafa ítrekað verið sakaðir um að gera loftárásir á almenna borgara.

Rudskoi segir að Rússar muni nú snúa sér að friðarviðræðum á milli Assad, uppreisnarmanna, sýrlenskra Kúrda og annarra fylkinga og uppbyggingu í landinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.