Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Valur 90-89 │ Grindvíkingar stálu sigrinum í lokin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson fer fyrir liði Grindavíkur
Ólafur Ólafsson fer fyrir liði Grindavíkur Vísir/Eyþór

Grindavík vann eins stigs sigur á Val í 10.umferð Dominos deildar karla í kvöld. Dagur Kár Jónsson skoraði sigurkörfu heimamanna þegar 0,44 sekúndur voru eftir.

Leikurinn var fremur jafn í byrjun og heimamenn leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta. Að honum loknum tóku hins vegar Valsmenn yfir. Þeir skoruðu heil 33 stig í öðrum leikhluta og Grindavíkurvörnin var varla til staðar.

Staðan í hálfleik var 54-45 og það voru brjálaðir Grindvíkingar sem gengu framhjá okkur blaðamönnum á leið til búningsklefa.

Valsmenn héldu yfirhöndinni í síðari hálfleik. Grindavík gerði sig líklega í nokkur skipti að ná muninum niður í örfá stig en alltaf svöruðu Valsmenn. Gunnar Ingi Harðarson fór á kostum hjá Val og raðaði niður þristunum og það var verulega gaman að fylgjast með vinnuseminni í Hlíðarendapiltum sem börðust eins og ljón um alla bolta.

Fyrir síðasta leikhlutann leiddu gestirnir með átta stigum og það var í raun ekki fyrr en alveg undir lokin sem heimamenn fóru að anda í hálsmálið á þeim. Varnarleikur Vals var ekki samur í fjórða leikhluta og Grindavík gekk á lagið.

Þegar 5 sekúndur voru eftir leiddu Valsmenn með einu stigi og Grindavík átti innkast við miðlínu. Dagur Kár Jónsson fékk boltann, keyrði á körfuna og skoraði úr erfiðu skoti með varnarmann Vals í andlitinu.

Þær 0,44 sekúndur sem voru eftir á klukkunni dugðu ekki Val til að skora þó svo að Gunnar Ingi hafi náð skoti á körfuna úr ágætis færi. Eins stigs sigur Grindavíkur því staðreynd og heimamenn fögnuðu.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir áttu þennan sigur ekki skilinn og það viðurkenndi Jóhann þjálfari fúslega eftir leik. Þeir stóðu hins vegar í lappirnar þegar á reyndi og sýndu karakter í lokin. Að skot Dags hafi síðan farið niður en ekki skot Gunnars Inga er svo lítið annað en spurning um heppni.

Valsvörnin sem hafði staðið vel fram að fjórða leikhluta var ekki söm undir lokin og það skipti sköpum. Grindavík skoraði 29 stig í síðasta leikhlutanum og það var of mikið fyrir gestina.

Þessir stóðu upp úr:

Rashad Wack var stigahæstur heimamanna með 21 stig og Dagur Kár skoraði 16 stig og auðvitað þessi mikilvægu stig sem tryggðu sigurinn. Ólafur Ólafsson skoraði ekki stig fyrir hlé en svaraði heldur betur kallinu í seinni hálfleik og endaði með 17 stig.

Hjá Val var Urald King með 22 stig og 15 fráköst. Hann er frábær í þessu Valsliði sem nýtir hann hárrétt. Gunnar Ingi Harðarson skoraði 20 stig og var með frábæra nýtingu. Þá átti Illugi Steingrímsson góða innkomu af bekknum og skilaði 15 stigum.

Hvað gekk illa?

Vörn Grindavíkur var arfaslök í fyrri háfleik og Jóhann Þór þjálfari sagði vararleikinn hafa náð botni þá. Ólafur Ólafsson komst engan vegin í takt við leikinn fyrir hlé en steig upp í þeim síðari eins og góðum leikmanni sæmir.

Þá settu heimamenn aðeins niður 50% af sínum vítaskotum og nýting Valsmanna af línunni var litlu skárri.

Vörn Vals brást þeim í síðasta leikhlutanum og þeir voru klaufar undir lokin þegar þeir voru með leikinn í hendi sér.

Áhugaverð tölfræði:

Gunnar Ingi var með 70% nýtingu og setti niður sex þriggja stiga skot úr átta tilraunum. Bæði lið voru með yfir 40% þriggja stiga nýtingu sem telst gott. Wack setti niður fjögur af sex skotum fyrir utan línuna hjá heimamönnum.

Hvað gerist næst?

Grindavíkur heldur norður á Akureyri og mætir þar Þór frá Akureyri. Sigur þar og Suðurnesjamenn geta farið sæmilega sáttir í jólafrí.

Valsmenn taka á móti sjóðandi heitum Haukum í Valshöllinni en þessi tvö lið séra Friðriks hafa heillað marga körfuknattleiksunnendur í vetur.

Jóhann Þór: Ég er með skítinn í buxunum útaf þessu

Jóhann Þór var ósáttur með varnarleik sinna manna í kvöld. vísir/ernir

„Við vorum vandræðalega slakir í fyrri hálfleik. Við höfum ekki náð takti varnarlega í vetur og ég myndi segja að við höfum náð ákveðnum botni í fyrri hálfleik. Það vantar þessi grunnígildi sem þurfa að vera í góðri liðsvörn, það var skárra í seinni. Þetta var ljótur sigur og við áttum þetta ekki skilið,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir eins stig sigur á Val í Grindavík í kvöld.

Sigurkarfa Grindvíkinga skoraði Dagur Kár Jónsson þegar 0,44 sekúndur voru eftir á klukkunni en þá höfðu Grindvíkingar ekki verið yfir síðan í 2.leikhluta.

„Við tökum þetta auðvitað og það er einn leikur eftir fyrir jól. Ég hef sagt í viðtölum að ég hafi ekki áhyggjur af þessu en ég er með skítinn í buxunum yfir þessu, það verður bara að viðurkennast.“

Valsliðið spilaði afar grimmt á heimamenn og börðust eins og ljón allan leikinn.

„Valsliðið er hörkugott, mjög vel þjálfað og til fyrirmyndar hvernig þeir nálgast sinn leik. Mínir menn geta tekið sér þetta til fyrirmyndar. Hver einasti maður hjá þeim er á fullu allan tímann og hefur fulla trú á skipulaginu. Það er aðdáunarvert að fylgjast með þessu, bætti Jóhann við og sagði að aðaláherslan fyrir leikinn gegn Þór Akureyri yrði að laga varnarleikinn.

„Við erum með allt lóðrétt, eða allt lóðbeint „Team Fannar Ólafs“ niður um okkur,“ sagði Jóhann um varnarleikinn og vitnaði þér í Fannar Ólafsson sérfræðing í Dominos körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport.

„Síðan í nóvember hefur þetta verið svona og það hefur lítið gengið. Við þurfum að finna einhverjar aðrar leiðir. Það er klárt,“ sagði Jóhann Þór að lokum.

Ágúst: Náttúrulega ekki sáttur með niðurstöðuna

Ágúst Björgvinsson er þjálfari Vals. Vísir/Eyþór

„Ég er náttúrulega ekki sáttur með þessa niðurstöðu. Það var margt gott í þessu og það erfitt að sjá það akkúrat á þessari stundu en við þurfum bara að gera það sem við höfum gert í allan vetur. Taka einn leik fyrir í einu og halda áfram,“ sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals eftir grátlegt tap í Grindavík í kvöld.

„Það var margt sem hefði mátt fara betur í sókn þó við höfum skorað mikið í fyrri hálfleik. Sérstaklega á móti liði sem hefur verið eitt það besta í íslenskum körfubolta síðustu áratugi. Auðvitað er gott að geta gert þetta á þeirra heimavelli en það gaf okkur ekki sigur í dag og það er það sem skiptir öllu máli,“ bætti Ágúst við.

Sigurkarfa Dags Kárs Jónssonar kom þegar 0,44 sekúndur voru eftir á klukkunni og Ágúst sagði auðveldast að benda á varnarleikinn þegar skoða ætti hvað hefði farið úrskeiðis undir lokin.

„Við fáum á okkur 29 stig í fjórða leikhluta og það er alltof mikið. Svo erum við líka að tapa boltanum klaufalega og þeir skora auðveld stig. Það tekur svolítið taktinn úr okkur. Þeir taka sóknarfráköst og ef við hefðum frákastað aðeins betur hefðu úrslitin orðið öðruvísi.“

Jóhann Þór þjálfari Grindavíkur hrósaði Valsliðinu eftir leik og sagði margt sem hans strákar gætu tekið sér til fyrirmyndar hjá Val.

„Ég er rosalega stoltur af mínu liði og ég hef sagt eftir hvern einasta leik að það eru allir í þessu liði tilbúnir að leggja sig fram. Þeir eru að byrja í efstu deild og ætla sér að nýta tækifærið til að sýna sig á stóra sviðinu. Við verðum fúlir með þennan leik í kvöld en síðan höldum við áfram að æfa eins og við höfum gert og mætum tilbúnir í næsta leik,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, að lokum.

Dagur Kár: Vorum að hlaupa eins og hauslausar hænur

Dagur Kár Jónsson tryggði Grindavík sætan sigur í kvöld. Vísir/Anton

Dagur Kár Jónsson tryggði Grindavík sætan sigur á Val í kvöld með ævintýralegri körfu þegar 0,44 sekúndur voru eftir á klukkunni.

„Það kom auðvitað bara eitt til greina og það var að ná skoti. Við vorum aular að láta þetta fara í það að enda á einhverju lokaskoti. Við vorum virkilega lélegir í dag og við þurfum að taka til í hausnum á okkur,“ sagði Dagur Kár í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við höfum verið að hlaupa eins og hauslausar hænur þrátt fyrir að Jói sé að gefa okkur allar leiðbeiningarnar. Við þurfum að ákveða hvernig lið við ætlum að vera. Ætlum við að vera hauslausar hænur og ekki spila vörn? Þá verðum við ekkert þetta tímabilið. Við erum með frábæran mannskap og hann fer allur í súginn ef við gerum þetta ekki almennilega.

Valsliðið ýtti Grindvíkingum hraustlega upp að veggnum fræga í kvöld og Dagur sagðist taka hatt sinn ofan fyrir Val.

„Þeir eru kannski ekki með mestu hæfileikana. Hvaða orð er það?,“ sagði Dagur svo skyndilega þegar kallað var á hann að hann mætti ekki gleyma orðinu.

„Liverpool,“ svaraði Þorsteinn Finnbogason samherji hans.

„Já, spiluðum eins og Liverpool í fyrri hálfleik,“ sagði Dagur Kár svo brosandi áður en hann hélt áfram með viðtalið.

„Valsliðið er kannski ekki með mestu hæfileikana en þeir eru á fullu allan tímann og ég held að við höfum fengið smá áfall í byrjun, þeir pressuðu um allan völl og við vorum orðnir þreyttir strax. En við þurfum að vera tilbúnir í allt og gera betur en þetta,“ sagði Dagur Kár að lokum

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.