Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Stjarnan 81-92 │ Sterkur Stjörnusigur suður með sjó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur Bæringsson átti frábæran leik.
Hlynur Bæringsson átti frábæran leik.

Stjarnan bar sigurorð af Keflavík, 81-92, í 10. umferð Domino's deildar karla í kvöld.

Stjörnumenn leiddu allan tímann og héldu Keflvíkingum alltaf í hæfilegri fjarlægð.

Stjarnan var með 12 stiga forskot, 14-26, eftir 1. leikhluta. Varamenn Keflavíkur komu inn með miklum krafti í 2. leikhluta og þeir byrjuðu að minnka muninn. Stjarnan kláraði hins vegar 2. leikhlutann með 11-2 kafla og leiddi með 11 stigum í hálfleik, 39-50.

Stjarnan var áfram með góð tök á leiknum í seinni hálfleik og þrátt fyrir ágætis spretti náði Keflavík aldrei að minnka muninn að neinu ráði.

Stjörnumenn spiluðu af mikilli skynsemi á lokakaflanum og lönduðu 11 stiga sigri, 81-92.

Af hverju vann Stjarnan?
Eins mikil klisja og það er mættu Stjörnumenn tilbúnari til leiks. Þeir virtust leggja meira á sig strax frá upphafsflauti, náðu undirtökunum fljótlega og héldu þeim út leikinn.

Garðbæingar stjórnuðu hraðanum í leiknum og gáfu sér góðan tíma í sóknirnar undir lokin. Það hjálpaði líka heilmikið að þeir hittu úr helmingi þriggja stiga skota sinna.

Hverjir stóðu upp úr?
Turnarnir tveir undir körfunni hjá Stjörnunni, Hlynur Bæringsson og Tómas Þórður Hilmarsson, voru mjög öflugir.

Hlynur var með 18 stig, 14 fráköst, fimm stoðsendingar og 39 framlagspunkta. Tómas Þórður skoraði 22 stig, þar af 13 í fyrri hálfleik.

Róbert Sigurðsson átti einnig gott kvöld og stýrði sóknarleik Stjörnunnar af myndarskap.

Ragnar Örn Bragason, Ágúst Orrason og Þröstur Leó Jóhannsson stóðu upp úr liði Keflavíkur. Þeir komu með mikinn kraft af bekknum en það var ekki nóg.

Hvað gekk illa?
Keflavíkurvörnin var hriplek nánast allan leikinn. Heimamenn vörðu körfuna illa og skildu skyttur gestanna alltof oft eftir opnar fyrir utan þriggja stiga línuna.

Þá fékk Keflavík ekkert framlag frá sínum bandaríska leikmanni, Stanley Robinson, sem átti afleitan leik. Hann spilaði bara í rúmar 20 mínútur og nýtti þær afar illa. Robinson er ekki í neinu formi og virðist ekkert vera leikmaðurinn sem Keflavík þarf undir körfuna.

Hvað gerist næst?
Á sunnudaginn fær Keflavík Hauka í heimsókn í 8-liða úrslitum Maltbikarsins.

Stjarnan er hins vegar úr leik í bikarnum og á ekki leik aftur fyrr en eftir viku. Þá kemur Tindastóll í heimsókn í Ásgarð. Sama dag sækir Keflavík ÍR heim. Þetta eru síðustu leikir liðanna fyrir jólafrí.

Hrafn: Erum að vinna í hausnum á mér og okkur öllum
„Ég er mjög sáttur. Keflavíkurliðið tekur stór áhlaup og hittir úr þristum um leið og þú tekur léleg skot. Við héldum haus og stóðum saman þegar þeir komu á okkur og það er það sem við erum búnir að vinna mikið í. Við erum langt frá því að vera komnir með þetta en þetta var gott skref,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn á Keflavík í kvöld.

Stjörnumenn stjórnuðu hraðanum í leiknum mjög vel og hleyptu Keflvíkingum aldrei á flug.

„Mér fannst Róbert [Sigurðsson] stýra leiknum gríðarlega vel. Svo er ofboðslega mikilvægt að vera komnir með Sherrod [Wright] líka. Hann er sterkur og öruggur með boltann,“ sagði Hrafn.

Gengi Stjörnunnar hefur verið misjafnt í vetur og stöðugleikann vantað. Verkefni Hrafns og Stjörnumanna er því að framkalla sömu frammistöðu í næsta leik.

„Við höfum ekki spilað eins vel og við viljum og strákunum hefur liðið illa. Þjálfaranum hefur liðið illa. Við erum allir saman í þessu,“ sagði Hrafn.

„Ég skal játa það að þegar ástandið er svona þarf maður að sýna auðmýkt. Ég ráðfærði mig við góðan vin. Við erum að vinna í hausnum á mér og okkur öllum saman og byggja upp þann anda sem við viljum hafa.“

Friðrik Ingi: Of margir sem gera þetta á hljóðlegan hátt
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í tapinu fyrir Stjörnunni í kvöld. Stjörnumenn voru með undirtökin allan tímann og unnu 11 stiga sigur, 81-92.

„Það vantaði talsvert bit í leik okkar. Við vorum sjálfum okkur verstir fannst mér. Við fengum mikið af galopnum þriggja stiga skotum. Við erum gott þriggja stiga lið en einhverra hluta vegna fóru skotin ekki niður,“ sagði Friðrik Ingi í samtali við Vísi eftir leik.

„En það var ekki það sem fór með leikinn, heldur að við spiluðum mjög veika og slaka vörn. Það vantaði neista og kraft og við vorum einhæfir. Stjarnan gerði vel og spilaði ágætan körfubolta lengstum.“

Friðrik Ingi vildi sjá betra viðhorf og meiri útgeislun hjá sínum mönnum.

„Það vantaði sjálfstraust og karakter í hópinn. Við vorum flatir og það vantaði fleiri leiðtoga. Það eru of margir sem gera þetta á hljóðlegan hátt en stundum verða menn að sýna tennurnar og vera grimmari,“ sagði Friðrik Ingi.

Stanley Robinson, leikmaður Keflavíkur, átti afleitan leik og spilaði aðeins rúmar 20 mínútur. Friðrik Ingi var ekki sáttur með Robinson og segir hann ekki í formi.

„Hann var mjög slakur í dag og gerði ekki mikið fyrir okkur. Mér fannst takturinn vera þess eðlis að ég varð að láta hann sitja talsvert á bekknum,“ sagði Friðrik Ingi.

„Hann er í engu formi, því miður. Hann er búinn að vera hérna í einhverjar vikur og ég sé ekki miklar framfarir á forminu. Ég veit hversu megnugur hann er en hann verður að vera í formi til að geta spilað sinn eðlilega leik. Hann er langt frá því eins og staðan er núna.“

En þarf Robinson að bæta sig mikið til að verða ekki sendur heim?

„Já, ef hann verður ekki mikið betri en þetta. Þetta er harður heimur og yfirleitt er þetta annað hvort bandaríski leikmaðurinn eða þjálfarinn. Það er annað hvort ég eða hann ef töpum mikið fleiri leikjum og frammistaðan verður ekki betri en þetta,“ sagði Friðrik Ingi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.