Markaveisla hjá Arsenal á Emirates í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theo Walcott var flottur í kvöld.
Theo Walcott var flottur í kvöld. Vísir/Getty

Arsenal vann 6-0 stórsigur á hvít-rússneska liðinu BATE Borisov í kvöld í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Theo Walcott skoraði eitt mark í kvöld en átti líka þátt í fjórum öðrum mörkunum. Walcott var með fyrirliðabandið í leiknum og það kveikti heldur betur í honum.

Arsenal var fyrir leikinn búið að vinna riðilinn og tryggja sér sæti í 32 liða úrslitunum. Sigurinn í kvöld þýðir að liðið náði í 13 stig af 18 mögulegum og endaði með markatöluna 14-4.

Arsenal skoraði fyrsta markið eftir ellefu mínútur, var 3-0 yfir í hálfleik og komst í 4-0 í upphafi seinni hálfleiksins.

Mathieu Debuchy minnti á sig með sínu fyrsta marki í þrjú ár þegar hann kom Arsenal í 1-0 með þrumuskoti af átján metrum.

Theo Walcott átti þátt í undirbúningi fyrsta marksins og skoraði síðan annað markið sjálfur á 37. mínútu.

Jack Wilshere skoraði þriðja markið sex mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Theo Walcott sem var allt í öllu í fyrri hálfleiknum.

Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki vel fyrir BATE þegar Denis Polyakov sendi boltann í eigið mark á 51. mínútu eftir sendingu frá Theo Walcott. Danny Welbeck beið eftir boltanum en Polyakov sá um vinnuna fyrir hann.

Theo Walcott var felldur í teignum á 64. mínútu og Olivier Giroud skoraði úr vítaspyrnunni en þurfti reyndar að taka hans tvisvar sinnum.

Egyptinn Mohamed Elneny skoraði sjötta mark Arsenal á 74. mínútu eftir flottan undirbúning frá Jack Wilshere. Það var lokamark kvöldsins.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.