Innlent

„Þetta er söguríkasta hérað landsins"

Jóhann K. Jóhannsson skrifar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lauk nú undir kvöld opinberri heimsókn sinni í Dalabyggð. Þrátt fyrir mikla fólksfækkun á svæðinu undanfarna áratugi segist Guðni finna fyrir bjartsýni meðal íbúa og að þeir ásamt stjórnvöldum þurfi að taka höndum saman til þess að sporna gegn fólksfækkun.

Opinber heimsókn forsetahjónanna hófst í gær með heimsókn á Dvalar og hjúkrunarheimilið að Fellsenda en í heimsókn sinni heimsóttu þau einnig menningarstofnanir,  býli, skóla og fyrirtæki í sveitarfélaginu.

Opin fundur með forsetahjónunum og sveitarstjórn var haldinn í gær þar sem fjallað var um margvísleg áform Dalabyggðar í ferðaþjónustu og uppbyggingu menningarsetra. Í morgun að komið við að Staðarhóli í Saurbæ þar sem Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, kynnti metnaðarfull áform um uppbyggingu seturs og starfsemi til heiðurs Sturlu Þórðarsyni sagnaritara.

„Fyrir mig með minn áhuga á sögunni þá er nú gaman að koma hingað. Ég held það sé satt sem einhver sagði að þetta er söguríkasta hérað landsins,“ segði Guðni í dag.

Í heimsókn sinni sagðist Guðni hafa fundið fyrir bjartsýni íbúa þrátt fyrir að fólki hafi fækkað undanfarna áratugi. Ferðaþjónusta á svæðinu hefur farið vaxandi og í landbúnaði hafa verið ýmis sóknarfæri.Hann segir að samfélagið og stjórnvöld þurfi að taka höndum saman til að sporna gegn fólksfækkun.

„Það er í verkahring íbúanna og stjórnvalda, fólksins fyrir sunnan, að sjá um að hér sé hægt að hafa lífvænlegt samfélag. Samfélag sem leggur til landsins alls. Þetta er alveg hægt,“ sagði Guðni.

Forsetahjónin heimsóttu leik- og grunnskóladeild Auðarskóla í Búðardal þar sem tæplega 130 nemendur tóku á móti þeim sem Guðni segir að sé treystandi til þess að taka við framtíðinni.
„Þetta eru hressir krakkar. Vel hugsað um þau og í þeim liggur auðvitað framtíðin. Vigdís Grímsdóttir fékk nýlega verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, og hún sagði það eina sem skipti máli og það sem skiptir lang mestu máli er að hugsa vel um börnin,“ sagði Guðni. 

Opinberri heimsókn forsetahjónanna lauk nú undir kvöld með fjölskylduskemmtun í Dalabúð í Búðardal.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.