Fótbolti

Enska upprisan í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool endaði riðlakeppnina á 7-0 sigri.
Liverpool endaði riðlakeppnina á 7-0 sigri. Vísir/Getty

Fimm lið frá Englandi verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á mánudaginn.

Manchester-liðin City og United, Liverpool, Tottenham og Chelsea eru öll komin í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Fjögur fyrstnefndu liðin unnu sinn riðil en Chelsea lenti í 2. sæti C-riðils á eftir Roma.

Þetta er í fyrsta sinn sem fimm lið frá sama landinu komast í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Raunar er þetta bara í annað sinn sem fimm lið frá sama landi taka þátt í riðlakeppninni. Spánn átti einnig fimm fulltrúa á þarsíðasta tímabili.Gengi ensku liðanna í Meistaradeildinni undanfarin ár hefur ekki verið merkilegt. Fimm ár eru síðan lið frá Englandi (Chelsea) varð Evrópumeistari og síðan þá hafa aðeins tvö ensk lið, Chelsea 2014 og Man­chester City 2016, komist í undan­úrslit keppninnar.

Á síðasta tímabili hélt Leicester City uppi heiðri ensku liðanna með því að komast í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. City og Arsenal féllu út í 16-liða úrslitum en Tottenham komst ekki upp úr sínum riðli. Þrír af fimm fulltrúum Englands í Meistaradeildinni í ár voru ekki einu sinni með á síðasta tímabili.

Ensku liðin töpuðu aðeins þremur af 30 leikjum sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár. Þar af tapaði City fyrir Shakhtar Donetsk í þýðingarlausum leik fyrir Man­chester-liðið í fyrradag. Ensku liðin voru með 70% vinningshlutfall í riðlakeppninni í ár. Til samanburðar var vinningshlutfall spænsku liðanna 45,8%, ítölsku liðanna 44,4% og þeirra þýsku 38,8%.


Tottenham, sem komst ekki upp úr sínum riðli í fyrra, fékk flest stig allra liða í riðlakeppninni, eða 16 talsins. Spurs var í riðli með Evrópumeisturum Real Madrid og Borussia Dortmund svo árangur Lundúna­liðsins er framúrskarandi.

Ensku liðin skoruðu alls 80 mörk í riðlakeppninni. Liverpool var markahæsta enska liðið með 23 mörk. Aðeins Paris Saint-Germain skoraði meira (25 mörk). Liverpool skoraði tvisvar sinnum sjö mörk í leik; gegn Maribor á útivelli og gegn Spartak Moskvu á heimavelli í fyrradag.

Þetta enska haust gleymist samt fljótt ef árangurinn í útsláttarkeppninni næsta vor verður ekki góður. Það getur margt breyst á þeim rúmu þremur mánuðum sem eru þar til 16-liða úrslitin hefjast. En frammistaðan í riðlakeppninni gefur allavega góð fyrirheit.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.