Innlent

Hætti í lögfræðinámi eftir að hafa verið illilega áreitt af kennaranum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Í yfirlýsingunni kemur fram að kvenfyrirlitning, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi sé vandamál í öllum lögum samfélagsins, einnig innan réttarvörslukerfisins.
Í yfirlýsingunni kemur fram að kvenfyrirlitning, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi sé vandamál í öllum lögum samfélagsins, einnig innan réttarvörslukerfisins. Vísir/Getty

Konur innan réttarvörslukerfisins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kvöld undir yfirskriftinni „Þögnin rofin.“ Í yfirlýsingunni kemur fram að kvenfyrirlitning, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi sé vandamál í öllum lögum samfélagsins, einnig innan réttarvörslukerfisins. Þær krefjast þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti verði sett í forgang og að allir vinnuveitendur taki ábyrgð á að uppræta vandamálið.

156 konur skrifa undir yfirlýsinguna en henni fylgja 45 reynslusögur.

Fór með hendurnar inn á nemanda með agressífum hætti fyrir framan aðra nemendur
Ein kona segir frá því þegar hún var í laganámi og farið var í vísindaferð til sýslumanns á landsbyggðinni. „Að lokinni vísindaferðinni var haldið á bar í borginni, kennarinn fór með. Ég fór snemma heim en frétti af því strax eftir helgina að skólasystir mín hafði verið áreitt illilega af kennaranum. Meðal annars fór hann með hendurnar inn á hana með agressífum hætti á barnum fyrir framan aðra nemendur.“

Segir hún að skólasystirin hafi verið mjög slegin þegar hún sagði henni frá þessu. „Svo slegin að hún gat ekki mætt í skólann, enda átti hún að sitja undir fræðslu þessa kennara um lögfræðileg álitaefni. Hún fór heim. Hún snéri aldrei til baka.“

Konan segir í frásögninni að hún og fleiri nemendur hafi farið fleiri ferðir til skrifstofustjóra deildarinnar og reynt að fá fram réttlæti fyrir skólasystur okkar en allt hafi komið fyrir ekki. „Þeirra afstaða: Orð á móti orði getur aldrei leitt til refsingar fyrir kennarann...“

Bauðst ágætis einkunn af kennara með „einkatímum“
Önnur kona segir frá því að henni hafi boðist góð einkunn með „einkatímum.“ „Þegar ég var laganemi bauðst mér einu sinni góð einkunn í valnámskeiði af kennara sem var einnig starfandi í einkageiranum. Árangurinn myndi nást með „einkatímum.“ Ég þáði ekki boðið og tók ekki námskeiðið svo það reyndi aldrei á hvort að það væri alvara á bak við tilboðið þó það hafi síðar verið ítrekað.“

Í annarri reynslusögu er lýst öðru atviki sem átti sér stað í lagadeild. Segir kona frá því að nokkrir karlkyns skólafélagar hafi setið fyrir utan lesstofuna og verið að rökræða dóm. „Ég fer að blanda mér í umræðuna og eftir einhverja stund legg ég eitthvað til málanna sem strákunum þótti erfitt að svara svo viðbrögðin voru orðrétt: „Æji, þarft þú ekki bara að fara heim að elda eða eitthvað?““

Enn önnur kona segir frá því þegar starfandi lögmaður og kennari í refsirétti sagði: „Við sleppum því að fjalla um hlutverk réttargæslumanns, enda óþarft hlutverk og kellingastarf.“

Segir frá því þegar varðstjóri í fangelsi kleip í rass hennar fyrir framan fangana
Ein kona segir frá því þegar hún starfaði sem fangavörður í fangelsi eitt sumar meðfram laganámi. „Samstarfsmennirnir voru 95% karlmenn og fangarnir 100% karlmenn,“ segir hún. „Ég átti marga vini þarna og þar á meðal var varðstjóri sem var ca. 20 árum eldri en ég. Eitt kvöldið fórum við saman í lyfjagjöf, s.s. rölt um alla gangana að gefa kvöldlyfin. Þegar við erum að koma inn í klefa eins fangans finn ég að varðstjórinn klípur í rassinn á mér. Ég sneri mér við, því ég ætlaði ekki að trúa því að þessi maður, sem ég taldi ágætis vin og kunningja, hafi gert þetta og það innan um ca. 10 fanga. En jú þarna stóð hann glottandi,“ segir hún.

Önnur kona segir frá áreitni sem hún varð fyrir í lögreglunni. „Tvítug byrjaði ég í lögreglunni og hef starfað þar í tæp 40 ár. Að hugsa til baka og það sem maður lét yfir sig ganga án þess að þora að mótmæla er varla rithæft,“ skrifar hún.

Segir hún að kynferðisleg áreitni hafi verið daglegt brauð og að hún hafi þurft að búa sig undir það, eins og hægt var, áður en mætt var á vaktina.

„Verst var þegar maður var skráður ein í lögreglubíl með einhverjum sem ítrekað reyndi að kyssa mann þrátt fyrir mótmæli. Ég man að ég óskaði eftir því að vera ekki skráð með ákveðnum tæplega miðaldra manni þar sem hann gekk mjög langt og fékk ég að heyra að konum væri ekki treystandi í lögreglu. Því var snúið þannig við að ég sem lögreglukona treysti mér ekki að fara í útköll, það var ekki hlustað á mig þegar ég sagði hvað hafði gerst. Kynferðisleg áreitni var ekki talin stórmál og mætti ég búast við slíku þar sem ég kaus að vera innan um alla þessa karlmenn,“ segir hún.

Þá segir önnur kona sem starfað hefur innan lögreglunnar að samstarfsmaður hennar hafi ítrekað vísað til kvenna í hvorugkyni. „Að hans sögn þurfti að „passa þetta“, „þetta gat ekki unnið“ og „þetta voru gagnslausir lögreglumenn“ og þar fram eftir götunum. Sama hvað ég leiðrétti hann oft. Einnig var okkur tilkynnt sem heild að við værum síður greindar en karlar, reglulega með kaffinu. Auk þess að vera nokkrum sinnum strokið um bakið og axlirnar af mönnum sem ég þekki lítið sem ekkert til.“

Allar frásagnirnar má lesa hér.

Eins og kom fram á Vísi í dag verða #MeToo sögur lesnar upp á viðburðum á þremur stöðum á landinu á sunnudag. Ætla konur innan réttarvörslukerfisins að taka þátt í þeim viðburði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.