Fótbolti

Axel Óskar ætlar sér á HM: „Til hvers að lifa ef maður stefnir ekki hátt?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Axel Óskar Andrésson er fæddur 1998 en er fastamaður í U21 árs landsliðinu.
Axel Óskar Andrésson er fæddur 1998 en er fastamaður í U21 árs landsliðinu. vísir/anton brink
Axel Óskar Andrésson, leikmaður Reading og íslenska U21 árs landsliðsins í fótbolta, hefur sett stefnuna á að komast í lokahóp A-landsliðsins sem fer á HM 2018 í Rússlandi.

Frá þessu segir hann í viðali við Devonlive.com en Axel var á dögunum lánaður frá B-deildarliðinu Reading til E-deildarliðsins Torquay United í einn mánuð en það spilar í efstu deild utandeildarinnar á Englandi.

Axel Óskar hefur verið að færast upp tröppurnar hjá Reading en hann er búinn að spila tvo deildabikarleiki fyrir liðið á leiktíðinni og vera nokkrum sinnum í hóp í B-deildinni. Nú fer hann í mánuð til Torquay þar sem hann fær vonandi að spila reglulega.

„Ísland er komið á HM í fyrsta sinn og ég ætla að reyna að komast í hópinn. Til hvers að lifa ef maður stefnir ekki hátt,“ segir Axel Óskar, sem er uppalinn hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ.

„Ég hef verið í landsliðum síðan ég var fimmtán ára og alltaf að spila upp fyrir mig,“ segir hann, en Axel er sonur kraftajötunsins Andrésar Guðmundssonar og algjört tröll að burðum.

Axel fór á lán til Bath City á síðustu leiktíð en knattspyrnustjóri þess, Gary Owens, er nú við stjórnvölinn hjá Torquay.

„Í mínum huga er þetta félag sofandi risi sem ég vil hjálpa að komast upp um deild. Ég þekki félagið vel. Það eru stuðningsmenn Torquay í Reading og áður hafa íslenskir leikmenn eins og Ívar Ingimarsson spilað með því. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um að koma og spila hérna,“ segir Axel Óskar Andrésson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×