Viðskipti innlent

Jafnrétti einkennir frumkvöðlasenuna á Íslandi

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Hekla Arnardóttir (t.v.) segir jafnrétti einkenna senuna. Með henni eru Helga Valfells og Jenný Rut Hrafnsdóttir. Saman stofnuðu þær Crowberry Capital.
Hekla Arnardóttir (t.v.) segir jafnrétti einkenna senuna. Með henni eru Helga Valfells og Jenný Rut Hrafnsdóttir. Saman stofnuðu þær Crowberry Capital. vísir/anton brink
Bandaríska tímaritið Wired fjallaði nýlega um frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun á Íslandi. Þar segir að frumkvöðlar hér á landi búi við góð skilyrði til þess að stofna og reka fyrirtæki.

Í greininni er Íslandi lýst sem fámennu landi þar sem dýrt er að búa og ströng lög ríkja um fjárfestingar. Hér hafi orðið efnahagshrun árið 2008 en í kjölfarið hafi skapast tækifæri til nýsköpunar.

„Það opnaði glænýja veröld,“ segir í greininni.

Árið 2015 náðu fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum hámarki en áhuginn var gífurlegur og námu fjárfestingar 150 milljónum punda – 21,3 milljarði króna tæplega.

Greinin bendir á að árangurinn megi rekja til fyrirtækja sem hafa gert það gott á erlendum markaði og er CCP þar tekið sem dæmi.

Að lokum er tekið stutt viðtal við Heklu Arnardóttur hjá fjárfestingarfélaginu Crowberry Capital. Crowberry er stjórnað af þremur konum sem er ekki algengt í fjárfestingargeiranum.

„Það var aldrei ætlunin að vera kvennafyrirtæki,“ segir Hekla og bætir við að hér á landi hafi skapast góðar aðstæður fyrir konur innan fyrirtækja.

„Á Íslandi er að finna fjölda nýsköpunarfyrirtækja sem stjórnað er af konum. Það ríkir jafnrétti hér á landi og við lítum aldrei á það sem vandamál að vera konur.“

Að lokum bendir greinin á fimm fyrirtæki sem allir ættu að fylgjast með í náinni framtíð. Þau eru:

Meniga

Meniga sér um heimilisfjármálalausnir og hefur farið í útrás með samstarfi við fjölmarga erlenda banka. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 af Ásgeiri Erni Ásgeirssyni, Viggó Ásgeirssyni og Georg Lúðvíkssyni.

Viska

Þekkingarleikur í gervigreind (e. artificial intelligence) sem fram fer í snjallsímum. Stofnað árið 2017 af Stefaníu Ólafsdóttur, Árna Hermanni Reynissyni og Völu Halldórsdóttur.

Sólfar Studios

Fyrirtæki sem sérhæfir sig í framkvæmd sýndarveruleika (e. virtual reality). Stofnað árið 2014 af Kjartani Pierre Emilssyni, Reyni Harðarsyni og Þór Gunnarssyni.

Platome Biotechnology

Sérhæfir sig í ræktun frumna á rannsóknarstofum. Stofnað árið 2016 af Söndru Mjöll Jónsdóttur-Buch og Ólafi Eysteini Sigurjónssyni.

Activity Stream

Gerir fyrirtækjum kleift að nota gervigreind til að bæta þjónustu og rekstur. Stofnað árið 2013 af Einari Sævarssyni og Stefáni Baxter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×