Fimmta stoðsending Jóhanns Berg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp sigurmark Burnley gegn Watford í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Markið kom rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, Scott Arfield mætti fyrirgjöf Jóhanns Berg í teignum og setja boltann í netið.

Nokkrum mínútum fyrr, á 39. mínútu leiksins, var Marvin Zeegelaar sendur í sturtu eftir tveggja fóta tæklingu á Steven Defour og Burnley því manni fleiri það sem eftir lifði leiks.

Burnley kom boltanum aftur í netið á 72. mínútu, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Skot frá Arfield fór af Tom Cleverley og í hlaupaleið Ashley Barnes sem skoraði. Dómari leiksins þurfti að leita aðstoðar frá línuverðinum og ákvað svo að dæma markið af.

Watford var meira með boltann í leiknum og átti fleiri skot, en Burnley hitti þó oftar á rammann, fimm af átta skotum rötuðu á markið, en aðeins tvö af ellefu skotum Watford.

Tíu mönnum gestanna tókst ekki að næla í sigurmark og fór Burnley með stigin þrjú af velli.





Annars staðar í ensku úrvalsdeildinni vann Huddersfield nýliðaslaginn gegn Brighton, 2-0, Swansea sigraði West Brom og Crystal Palace gerði jafntefli við Bournemouth.

Swansea átti aðeins þrjú skot á markið á móti einu skoti West Brom í tíðindalitlum leik í Wales. Sigurmarkið kom undir lok leiksins er Wilfried Bony skoraði af stuttu færi. Bony skoraði líka í síðasta leik og er þetta í fyrsta skipti síðan 2014 að Bony skori í tveimur leikjum í röð.

Huddersfield réði lögum og lofum á John Smith's vellinum í Huddersfield. Steve Mounie skoraði bæði mörk leiksins í fyrri hálfleik.

Wilfried Zaha fiskaði vítaspyrnu fyrir Crystal Palace undir lok fyrri hálfleiks sem þeir jöfnuðu úr eftir að Jermain Defoe hafði komið Bournemouth yfir. Afar litla snertingu þurfti til að fella Zaha í teignum og gæti hann fengið bann fyrir leikaraskap ef atvikið verður tekið fyrir til nánari skoðunnar hjá enska knattspyrnusambandinu.

Scott Dann kom Palace svo yfir á 45. mínútu en Defoe jafnaði fyrir gestina í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Eftir markalausan seinni hálfleik fengu heimamenn vítaspyrnu í uppbótatíma. Aftur var það Zaha sem féll í teignum. Christian Benteke misnotaði hins vegar spyrnuna og endaði leikurinn með jafntefli.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira